Guðmundur Rúnar til Malaví

Guðmundur Rúnar Árnason
Guðmundur Rúnar Árnason

Guðmundur Rúnar Árnason forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og fyrrverandi bæjarstjóri hefur verið ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Malaví.  

Vilhjálmur Wium er umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví en Stefán Jón Hafstein sem áður gegndi starfi umdæmisstjóra hefur tekið við starfi sviðsstjóra á aðalskrifstofu Þróunarsamvinnustofnunarinnar á Íslandi.

„Það má segja að hér sé gamall draumur okkar hjóna að rætast. Við ræddum það oft á námsárunum að það væri örugglega gefandi og krefjandi að sinna störfum af þessu tagi og ég er viss um að menntun, starfsreynsla og lífsreynsla eiga eftir að nýtast  vel við þau krefjandi verkefni sem framundan eru. Þegar starfið var auglýst síðastliðið vor dró það strax að sér athygli okkar. Ég er mjög spenntur og það á við um alla fjölskylduna, " segir Guðmundur Rúnar sem heldur til Malaví ásamt fjölskyldu sinni í næsta mánuði.

Meginverkefni hans verður að styðja við héraðsstjórn Mangochi héraðs í suðurhluta Malaví þar sem Þróunarsamvinnustofnun styrkir héraðið í lýðheilsu, vatns- og menntamálum, auk stjórnsýslu.

Guðmundur Rúnar er fæddur 1958, sonur Ágústu Haraldsdóttur og Árna Guðmundssonar. Hann er kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur, félagsfræðingi. Með þeim til Malaví fara yngstu dæturnar tvær, Ágústa Mithila 13 ára og Þórdís Timila, 11 ára.

Guðmundur Rúnar lauk stúdentsprófi frá Flensborg 1978 og BA-prófi í stjórnmálafræði frá HÍ árið 1985. Ári síðar lauk Guðmundur Rúnar meistaraprófi í stjórnmálafræði frá London School of Economics og doktorsprófi frá sama skóla vorið 1991. Guðmundur hefur stundað háskólakennslu og rannsóknir í félagsvísindum. Hann var ritstjóri Vinnunnar og upplýsingafulltrúi ASÍ í áratug. Þá var hann varabæjarfulltrúi kjörtímabilið 1998-2002 og bæjarfulltrúi síðan. Hann hefur m.a. setið í fjölmörgum nefndum og gegndi starfi bæjarstjóra í Hafnarfirði á árunum 2010 til 2012.

Capacent Gallup sá um ráðningarferlið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert