Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur fallist á kröfu eins íbúa í Hafnarfjarðarbæ þess efnis að hann eigi rétt á að fá aðgang að skilmálaskjali milli Hafnarfjarðarbæjar og Depfa ACS Bank og FMS Wertmanagement. Bærinn hafði neitað að veita aðgang að umbeðnum gögnum á þeim forsendum að ákvæði í samningi kvæðu á um trúnað milli aðila. Úrskurðarnefndin segir upplýsingarétt almennings ganga framar viðskiptahagsmunum í þessu tilviki. Þó kemur fram í úrskurði nefnarinnar að afmá skuli vaxtakjör og endurgreiðsluhlutföll.
Jón Arnar Guðmundsson, íbúi í Hafnarfirði, ákvað að kæra ákvörðun bæjarins um að synja honum aðgangi að umræddum upplýsingum. Hann segist vera kominn með nóg af því að hann og aðrir íbúar bæjarins þurfi að taka á sig mikla skerðingu á þjónustu og hækkað útsvar án þess að fá fullnægjandi skýringar á því hvað liggi að baki.
Í skilmálaskjalinu sem Jón Arnar hefur nú fengið í hendur kemur m.a. fram að allar óseldar lóðir bæjarins séu að veði, og við sölu skuli 90% söluandvirðis renna til greiðslu á höfuðstól. Þá segir að myntum í þremur eldri samningum skuli breytt í evrur og að hlutabréf og skuldabréf liggi að veði ef lánasamningur falli í vanskil.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá eru skuldir Hafnarfjarðarbæjar að sliga sveitarfélagið. Hinn 4. apríl 2012 kom fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi að bærinn skuldaði 38,4 milljarða króna. Bærinn hefur hingað til ekki viljað birta skilmála í samningum upp á 13 milljarða króna við Depfa-bankann til endurfjármögnunar lána. Hafnarfjarðarbær hafði m.a. vísað til þess að heimilað væri í upplýsingalögum að takmarka aðgang almennings að gögnum ef mikilvægir almannahagsmunir krefðust enda væri um samning við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir að ræða. Þannig var vísað til þess að bankinn væri í eigu þýska ríkisins. Úrskurðarnefndin féllst ekki á þau rök þar sem lántaka sveitarfélagsins var á almennum lánamarkaði og því hefði verið um markaðsviðskipti að ræða. Þá studdi bærinn synjun sína einnig þeim rökum að Depfa-bankinn hefði krafist trúnaðar. Úrskurðarnefndin segir að vissulega sé heimilt skv. upplýsingalögum að synja almenningi um aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- og viðskiptasamninga fyrirtækja. Það eigi t.d. við þegar almenn vitneskja um kjör viðskipta fyrirtækja við hið opinbera geti skaðað samkeppnisstöðu þeirra. Nefndin segir það sjónarmið þó víkja í þessu tilviki fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.
„Bæjarfulltrúar bera ábyrgð á fjögurra ára fresti, enda er ekki hægt að kjósa aftur á miðju kjörtímabili. Það átti að halda innihaldi samningsins leyndu fram yfir næstu kosningar en þar með hefðu bæjarbúar ekki forsendur til að meta störf bæjarfulltrúa fyrr en þær eru afstaðnar. Í ljósi þess hve fjárhagsleg staða bæjarins er slæm má segja að það sé aðför að lýðræðinu að halda upplýsingunum leyndum,“ segir Jón Arnar Guðmundsson, íbúi í Hafnarfirði.
„Við bentum á það allan tímann að það væri mjög óeðlilegt að trúnaður væri yfir þessu og þar af leiðandi kemur það okkur þannig ekki á óvart að þetta standist ekki þau viðmið sem eru sett,“ segir Valdimar Svavarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, aðspurður hvort úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli Jóns Arnars Guðmundssonar gegn Hafnarfirði kalli ekki á bætt vinnubrögð hjá meirihluta bæjarstjórnarinnar, og bætir við: „Þetta er auðvitað áfellisdómur yfir meirihlutanum að starfa með þessum hætti.“
„Í úrskurðinum eru tilteknir ákveðnir hlutir sem ekki verða gefnir upp, eins og vaxtakjörin og fleira í þeim dúr, en það eru akkúrat hlutirnir sem krafist var leyndar út af. Það sem okkur ber að afhenda er í sjálfu sér nokkurn veginn það sem hefur verið upplýst og hefur verið á borðinu alveg frá upphafi,“ segir Guðmundur Rúnar Árnason, forseti bæjarstjórnar og fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, spurður út í fyrstu viðbrögð í kjölfar úrskurðarins, og bætir við að úrskurðurinn feli það í sér að það sem viðsemjendur bæjarins vildu halda leyndu verði ekki gert opinbert.
Aðspurður hvort ekki sé einkennilegt að 90% af söluandvirði lóða í bænum renni beint til Depfa-bankans samkvæmt samningi bankans við sveitarfélagið segir Valdimar að þetta ákvæði samningsins sé mjög heftandi fyrir sveitarfélagið , þetta geri það t.d. að verkum að í einstaka tilvikum sé ekki endilega hagstætt að selja lóðir enda kalli sala á íbúðarlóðum á ákveðna þjónustu sem sveitarfélagið þarf að veita, þá kalli lóðir á nýbyggingarsvæðum á byggingu mannvirkja á borð við t.d. skóla.
„Það lá fyrir alveg frá upphafi og var eitthvað sem ég upplýsti um sjálfur dagana eftir að samningurinn var undirritaður, þannig að það er ekkert nýtt í því,“ segir Guðmundur Rúnar aðspurður út í þetta ákvæði samningsins. Rétt er að taka það fram að í samtali við Morgunblaðið hinn 22. desember 2011 sagði Guðmundur Rúnar að trúnaður ríkti um efni samningsins við Depfa og neitaði hann að gefa upp hvort söluverð lóðanna rynni til bankans.