Plakat af Chris Brown var „klúður“

Forsíða nýjasta tölublaðs Júlíu.
Forsíða nýjasta tölublaðs Júlíu. www.birtingur.is

Með nýjasta tölublaði af unglingablaðinu Júlíu, sem einkum er ætlað stúlkum á aldrinum 10-15 ára, fylgir plakat af söngvaranum Chris Brown, sem nú afplánar skilorðsbundinn dóm fyrir grófa líkamsárás á fyrrverandi unnustu sína, söngkonuna Rihönnu. Halldóra Anna Hagalín, ritstjóri Júlíu, segir þetta hafa verið klúður og að „mistök af þessu tagi verði ekki gerð aftur á meðan blaðið er undir hennar stjórn“.

„Birting tímaritsins Júlíu á plakati af popparanum Chris Brown í síðasta tölublaði hefur skiljanlega valdið uppnámi víða og við sem hérna vinnum eru þar engin undantekning. Þetta var klúður. Við leggjum gríðarlega mikið upp úr því að byggja upp sterka sjálfsmynd stelpna í blaðinu, viðtöl fjalla mjög gjarnan um mikilvægi einstaklingsins og að þora standa upp úr. Við reynum að vinna mikið með jákvæðar fyrirmyndir og ræðum nauðsyn þeirra,“ segir Halldóra í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér vegna málsins.

Andstætt gildum blaðsins

Brown var kærður fyrir árásina á Rihönnu árið 2009, hann játaði verknaðinn og var í framhaldinu dæmdur til fimm ára skilorðsbundins fangelsis. 

„Birting okkar á plakatinu er andstæð öllum þeim gildum sem við viljum standa fyrir. Við hjá Júlíu tökum vissulega hluta blaðsins og aðlögum frá systurblöðum sem eru gefin út á öllum Norðurlöndum. Þar á meðal þetta plakat af Chris Brown, sem hefur birst þar alls staðar. Brown er heimsþekktur listamaður og á milljónir aðdáenda sem kalla eftir svoleiðis birtingum og fjölmiðlafólk er sennilega ekki nógu duglegt við að standast þær kröfur. Það voru mistök hjá okkur að verða uppvís að þessu sama klúðri hér á landi og fleygja ekki þessu plakati af ofbeldismanninum Chris Brown út í hafsauga.“

Í yfirlýsingunni segir Halldóra að mistök af þessu tagi verði ekki gerð aftur í sinni ritstjóratíð. „Við þolum hvorki Chris Brown né þá skelfilegu kvenfyrirlitningu sem hann stendur fyrir. Og við viljum árétta það að við erum miður okkar yfir þessu klúðri. Við ætlum að reyna að bæta fyrir þetta við fyrsta tækifæri og fjalla betur um þessi mál, því ofbeldi gegn konum er eitt hrikalegasta viðfangsefni samtímans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert