Stjórn Vinstri grænna í Reykjavík fagnar þeirri umræðu sem nú á sér stað um aðildarumsókn Íslands að ESB og telur eðlilegt er að jafn veigamikið mál sem innganga ESB er, sé rætt á öllum stigum málsins.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnin sendi frá sér eftir fund í kvöld.
„Þegar aðstæður og forsendur breytast er slík umræða enn mikilvægari. Í því ljósi þykir stjórn VGR það óeðlileg kreddufesta að neita að ræða af alvöru afstöðu til aðildarumsóknar að ESB í ljósi breyttra aðstæðna.“
„Það hefur ávallt verið ljóst að Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB og hefur lagt áherslu á sjálfstæða utanríkisstefnu. Nú þegar reynsla er komin á svokallaðar björgunaraðgerðir Evrópusambandsins í Grikklandi, og öðrum aðildarríkjum sambandsins sem glíma við afleiðingar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu, er ljóst að sambandið er ekki það skjól fyrir smáþjóðir sem margir sáu fyrir sér veturinn 2008-2009. Evrópusambandið hefur fyrst og fremst staðið vörð um hagsmuni stórbanka og fjármagnseigenda og velt öllum byrðum kreppunnar yfir á almenning,“ segir í yfirlýsingunni.
„Það hefur einnig alltaf legið fyrir að Vinstrihreyfingin grænt framboð telur að þjóðin eigi að hafa síðasta orðið um þessa afdrifaríku ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórn VGR er ekki ein um að telja að ekki sé bitið úr nálinni með framtíð Evrópusambandsins og á því bágt með að skilja hvers vegna samstarfsflokkur VG í ríkisstjórn þverskallast við að taka upp brýna umræðu um endurmat á fyrri stefnu, þegar öll rök og heilbrigð skynsemi mæla með því.“