Þótt íslenskir sjómenn skipi allar stöður um borð í fossum og fellum sem eru í föstum áætlunarsiglingum á milli Íslands og Evrópu teljast þeir færeyskir launþegar og greiða skatta sína í Færeyjum.
Eimskip skráir skip sín í Antígva og Barbúda í Karíbahafi og skip Samskipa eru á Alþjóðlegri færeyskri skipaskrá (FAS). Bæði fyrirtækin eru með dótturfélög í Færeyjum og nýta sér ívilnunarkerfi sem þar er boðið upp á fyrir kaupskipaútgerðir.
Áhafnirnar greiða 35% flatan tekjuskatt í Færeyjum en skipafélögin fá 28% hans til baka í gegnum alþjóðlegu skipaskrána. Launakostnaður útgerðanna er því niðurgreiddur en færeyski landssjóðurinn heldur eftir 7% skattgreiðslnanna og fær einhverjar tekjur til viðbótar af skráningu skipa sem annars væru skráð annars staðar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að lög sem samþykkt hafa verið um íslenska alþjóðlega skipaskrá hafa ekki virkað.