Tekur sér hlé vegna áreitis fjölmiðla

Veðrið í sumar hefur verið með eindæmum gott og aukinn …
Veðrið í sumar hefur verið með eindæmum gott og aukinn áhugi á veðurfari væntanlega eftir því. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Einhvern veginn hefur það æxlast svo og að þessum skrifum hefur fylgt nokkuð áreiti fjölmiðla. Í sjálfu sér er það mjög gott upp að vissu marki. En það hefur farið vaxandi og sérstaklega síðustu mánuði svo að segja á öllum tímum dags,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, sem haldið hefur úti vinsælli bloggsíðu á blog.is undanfarin ár um veðurfar en hann hefur ákveðið að taka sér hlé frá bloggskrifum vegna áreitis fjölmiðla.

„Ég er svo sem ekki að kvarta undan umfjöllun fjölmiðla, þeir standa sig í stykkinu við að miðla efni um veðrið og margbreytileika þess og er það vel,“ segir Einar ennfremur og segir það hafa veitt sér mikla ánægju að fjalla um verður á bloggsíðunni. „Nú tek ég mér hlé í óákveðinn tíma, en held blogggáttinni opinni með öllu því efni sem hér er að finna og kemur upp þegar slegið er inn leitarorði.“

Dyggir lesendur Einars og aðrir áhugamenn um veðurfar geta þó huggað sig við það að Einar gerir ekki ráð fyrir að hléið verði mjög langt. „Veit að hlé þetta í veðurbloggskrifum hjá mér mun varla vara nema eitthvað fram á haustið, þegar mig fer aftur að klæja í fingurna og langar að nota þennan annars ágæta vettvang mbl.is til að fjalla um sitthvað sem vekur áhuga minn í veðrinu eða margbreytileika veðurfarsins hér á landi eða annars staðar.“

Bloggsíða Einars Sveinbjörnssonar

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert