Ásmundur Einar Daðason alþingismaður og bóndi á Lambeyrum í Laxárdal ætlar í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í næstu kosningum. Í viðtali við Ásmund sem birtist í Skessuhorni í dag upplýsir hann að hann sækist eftir öðru sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
„Ég hef ekki hugsað mér að verða eilífðarpólitíkus líkt og forystumenn sitjandi ríkisstjórnar. Þetta er að sjálfsögðu undir öðrum en mér komið en ég hef hins vegar fundið fyrir ánægju með mín störf á Alþingi og jákvæðum anda um allt kjördæmið. Með þetta að leiðarljósi stefni ég ótrauður að því að fara í framboð fyrir næstu Alþingiskosningar. Gunnar Bragi sem skipar efsta sætið í kjördæminu hefur staðið sig vel, bæði sem þingmaður og þingflokksformaður. Samstarf okkar hefur verið mjög gott og við náum vel saman á allan hátt. Miðað við að hann sækist eftir fyrsta sæti listans þá mun ég sækjast eftir öðru sætinu," segir Ásmundur Einar í Skessuhorni.