„Þó við blasi öllum að þessi krafa er sett fram í örvæntingu vegna skelfilegrar stöðu VG og reiði flokksmanna vegna svikanna í ESB málinu, þá setur hún málið í nýtt ljós. Hér er í rauninni um að ræða kröfu annars stjórnarflokksins um að stöðva með einhverjum hætti frekari samningaumleitanir við ESB,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag.
Tilefnið eru yfirlýsingar ráðherra og þingmanna úr röðum vinstri-grænna undanfarna daga þess efnis að endurskoða þurfi umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Einar segir ljóst að slíkar yfirlýsingar séu ekki settar fram án samráðs við formann VG, Steingrím J. Sigfússon en hann er nú staddur í fríi í Frakklandi.
„Þegar flestir nánustu samstarfsmenn Steingríms J. Sigfússonar formanns VG lýsa því yfir að endurskoða þurfi umsóknina að ESB, þarf ekki að efast um að slíkt er sett fram með vitund og vilja formannsins. Það gildir í þessu það sem haft var eftir Jónasi frá Hriflu forðum tíð: Byssurnar skjóta ekki sjálfar,“ segir Einar.
Þá bendir hann á að aðildarumsóknin að ESB sé ein helsta stoð stjórnarsamstarfsins. „Það er því alveg rökrétt hjá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að segja að málið veki upp spurningar um framhald samstarfsins.“
Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar