Airbus flugvél frá rússneska flugfélaginu Aeroflot, með 253 innanborðs, lenti laust fyrir klukkan hálf sjö á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar. Allir björgunaraðilar á suðvesturhorninu eru í viðbragðsstöðu, segir Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia.
Vélin var á leið frá New York til Moskvu. Að sögn Friðþórs er nú í gangi undirbúningur samkvæmt flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar. „Hún er í gildi þangað til vélin er lent og samtímis fer í gang ferli hjá lögreglunni, viðbragðsáætlun vegna ólögmætra aðgerða í loftfari. Sú rannsókn beinist að því að þetta er glæpur sem þarf að upplýsa og rannsaka þannig að þetta getur tekið langan tíma þó svo allt lukkist með lendingu,“ segir Friðþór.
„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá er ekki talið að hætta sé á ferðum varðandi flugvélina sjálfa,“ bætir hann við, en hann hafi ekki upplýsingar um hvernig hótunin hafi borist, hvort það hafi verið með tilkynningu eða hvort vopnaður maður sé um borð.
Mikil þoka er á Suðurnesjum og skyggni lítið.