„Þetta er eins og við höfðum lagt upp með og ég stefni á að halda þessu sæti,“ segir Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Iceland, en verslunin kom best út úr verðkönnun ASÍ á matvælaverði í lágvöruverðsverslunum, sem birt var í dag. Hann segir Iceland hafa fengið talsvert betri viðtökur en Bónus fékk á sínum tíma og hyggst halda áfram í verslunarrekstri á meðan hann hefur gaman af því.
Jóhannes segist afar ánægður með þær viðtökur sem Iceland hefur fengið, en á morgun eru tvær vikur síðan verslunin var opnuð. „Ég gæti ekki verið ánægðari, bílastæðin eru alltaf full og miklar annir í búðinni. Veltan er gríðarleg miðað við það sem ég reiknaði með. Miklu meiri en ég átti von á.“
Útilokar ekki fleiri verslanir
„Ég er með mjög gott fólk til að vinna að þessu með mér og það skiptir öllu máli,“ segir Jóhannes, en að hans sögn starfa allnokkrir fyrrum starfsmenn Bónuss með honum í Iceland. „Þetta er fólk sem kann til verka við að halda verðinu niðri og við allt annað, það er svo margt sem þarf í svona rekstri.“
Jóhannes útilokar ekki að opna fleiri Iceland verslanir hér á landi. „En það fer auðvitað eftir því hvort þessar móttökur haldast.“
Ertu farinn að huga að staðsetningu annarra Icelandverslana? „Nei, nei. Ég er tækifærissinni í því, það fer bara eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni. Ég er opinn fyrir öllu.“
Betri viðtökur en Bónus fékk
Jóhannes er rúmlega sjötugur, á þeim aldri sem margir huga að því að setjast í helgan stein. Hann segir starfsþrek sitt gott og að hann hafi aldrei fengið viðlíka móttökur sem nú. „Aðrir hafa sinn háttinn á. Ég kann betur við að vera á ferðinni, ég hef verið í verslunarrekstri síðan ég var barn. Ef maður hefur heilsu, eins og ég er búinn að fá aftur, þá notar maður krafta sína í það sem manni finnst skemmtilegt.“
Er þetta semsagt ennþá skemmtilegt? „Já, þetta er gríðarlega skemmtilegt. Það hefur aldrei verið eins og núna, ég hef aldrei fengið aðrar eins móttökur. “
Eru þetta betri viðtökur en Bónus fékk á sínum tíma? „Miklu betri, þá var ákveðin tortryggni í gangi, en ég finn ekkert slíkt núna. Það getur ekki verið betra.“