„Ólga víða að koma upp á yfirborðið“

Anna Ólafsdóttir Björnsson, formaður svæðisfélags VG á Álftanesi.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, formaður svæðisfélags VG á Álftanesi. mbl.is

„Betra seint en aldrei hugsa eflaust einhverjir félagar í Vinstri grænum nú, þegar svo virðist sem meirihluti þingflokksins sé að snúast á sveif með óbreyttum félögum í andstöðu sinni gegn ESB-aðildarviðræðunum. En traustið er laskað,“ segir Anna Ólafsdóttir Björnsson, formaður svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Álftanesi, á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB í dag.

Eins og kunnugt er hafa ýmsir forystumenn VG lýst því yfir að undanförnu að endurskoða þurfi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið og er meirihluti þingmanna flokksins nú á þeirri skoðun.

„Það þarf að taka nokkuð myndarlega á ef unnt verður að endurheimta traust þeirra kjósenda sem trúðu því í aðdraganda síðustu kosninga að stuðningur við VG væri öruggasta leiðin til að vinna gegn aðild Íslands að ESB,“ segir Anna ennfremur og ræðir þvínæst fyrirhugaðan flokksráðsfund VG sem fer fram 24.-25. ágúst næstkomandi. Hún segir að þó utanríkismál verði rædd á fundinum sé ekki gert ráð fyrir almennum stjórnmálaumræðum að þessu sinni líkt og áður.

„Þótt sumum forsvarsmönnum flokksins þyki eflaust leiðinlegt að sitja undir gagnrýni flokkssystkina sinna í almennum umræðum þá hafa þær fram til þessa verið vettvangur fyrir frjálsa umræðu án annarra fjötra en þröngra tímamarka. Reynslan mun sýna hvort unnt verður að halda umræðunni jafn lifandi með hinu nýja fyrirkomulagi eða ekki,“ segir Anna og rifjar síðan upp að margir stuðningsmenn VG hafi til þessa yfirgefið flokkinn.

„Því miður hafa margir einlægustu ESB-andstæðingarnir í flokknum þegar hrökklast á brott og ekki fundið sig í flokknum. Aðrir hugsa sinn gang. Hvort þetta fólk mun skila sér í flokksstarfið á nýjan leik eða ekki veltur meðal annars á því hvað gerist á næstu vikum,“ segir hún ennfremur og bætir því við að ályktun VG í Reykjavík frá í gær leyni því ekki að ókyrrð sé í flokknum og ólga sé víða að koma upp á yfirborðið.

„Ef Vinstri græn ná að stöðva þá ESB-vegferð sem þorri þjóðarinnar og ekki síst stuðningsfólk VG er andvígt þá má vera að traustið megi endurheimta. Enn er allt óljóst um það hvort það sé raunverulegur vilji og geta til að gera það,“ segir Anna að lokum.

Grein Önnu Ólafsdóttur Björnsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert