Skólavörðustígur sumargata viku lengur

Skólavörðustígur í Reykjavík
Skólavörðustígur í Reykjavík mbl.is/Hjörtur

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg að rekstraraðilar við Skólavörðustíg hafi farið fram á það við borgaryfirvöld að gatan verði göngugata í eina viku til viðbótar.

Áður hafði verið gert ráð fyrir því að þeir kaflar Skólavörðustígs og Laugavegar, sem verið hafa sumargötur og því lokaðar fyrir umferð vélknúinna ökutækja síðan 17. júní síðastliðinn, yrðu opnaðir á ný fyrir umferð eftir Menningarnótt 20. ágúst.

„Mikil ánægja hefur verið með fyrirkomulagið meðal rekstraraðila við Skólavörðustíg og vildu allir aðilar á svæðinu hafa götuna sumargötu í eina viku til viðbótar við áður auglýstan tíma. Kaflinn á Skólavörðustíg frá Bergstaðastræti niður að Laugavegi verður því göngugata áfram til mánudagsins 27. ágúst,“ segir í tilkynningunni.

Hins vegar segir að Hafnarstræti og Pósthússtræti verði sumargötur fram til 1. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert