Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, furðar sig á því hvers vegna utanríkismálanefnd Alþingis fordæmi það ekki að bresk yfirvöld hafi hótað því að ráðast inn í sendiráð Ekvador í London til þess að hafa hendur í hári Julians Assange, stofnanda uppljóstrunarvefsins Wikileaks.
Þá leggur hún áherslu á að samkvæmt Vínarsáttmálanum njóti eignir erlendra ríkja friðhelgi á erlendri grundu. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar í kvöld.
„Af hverju fordæmir utanríkismálanefnd Alþingis ekki bresk yfirvöld fyrir að hóta að ráðast inn í sendiráð Ekvador í London? Skv. Vínarsáttmálanum njóta eignir erlendra ríkja friðhelgi á erlendri grundu. Það er varla hægt að hugsa sér alvarlegri vanvirðingu við þjóð en þessa hótun Breta,“ segir Lilja.