Engar glóperur eftir næstu mánaðamót

Ljósaperur
Ljósaperur

Frá og með 1. september næstkomandi er framleiðendum ljósapera ekki lengur heimilt að selja og dreifa glærum 15 W, 25 W og 40 W glóperum til heildsala og endursöluaðila. Í staðinn fyrir glóperurnar verður hægt að fá orkusparandi perur, s.s. sparperur og ljóstvista en einnig eru til svonefndar halógen eco perur.

Frá þessu er greint á vefsvæði Neytendastofu sem fer með markaðseftirlit með ljósaperum og hefur eftirlit með að þessum reglum sé framfylgt. Verslunum verður leyfilegt að selja þær glóperur sem fluttar eru inn fyrir 1. september nk. og hreinsa af lager eldri gerðir.

Bannið kemur til vegna reglna um orkusparnað í aðildarríkjum EES. Orkusparandi perur nota allt að 80% minna rafmagn og ef heimili skipta út tíu 60 W glóperum fyrir samsvarandi orkusparandi perur getur sparnaður heimila við kaup á raforku verið allt að 7.000 krónur á ári. 

Neytendur eru hvattir til að kynna sér merkingar og leiðbeiningar á ljósapera. Auk þess hvetur stofnunin innflytjendur og seljendur til að kynna fyrir  neytendum þessar nýju vörur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert