Höfðað verði mál gegn ESA

Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra.
Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármálaráðherra, Oddný G. Harðardóttir, lagði fram tillögu á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun um að íslenska ríkið höfðaði mál gegn Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna sölu á byggingum til Verne sem rekur gagnaver í Keflavík. Ekki voru gerðar athugasemdir við tillöguna á fundinum. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

ESA komst í síðasta mánuði að þeirri niðurstöðu að Verne hefði hlotið ríkisaðstoð í tengslum við kaupin á byggingunum á gamla varnarliðssvæðinu í Keflavík árið 2008. Stofnunin leit svo á að söluvirði þeirra hefði verið lægra en það sem hún taldi vera markaðsvirði þeirra.

Vegna þess úrskurðaði ESA að mismuninn þyrfti ríkið að endurheimta frá Verne auk fasteignagjalda og gatnagerðagjalda sem Reykjanesbær hafði veitt fyrirtækinu undanþágu frá. Íslensk stjórnvöld vilja meina að við meðferð málsins hjá ESA hafi verið sýnt fram á að eignirnar hafi verið seldar í opnu söluferli og að lokum seldar hæstbjóðanda sem var Verne.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert