Segja ummæli gefa til kynna vanþekkingu

mbl.is

Stjórn Ungra Evrópusinna hvetur þingmenn vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) til að stuðla að áframhaldi aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. „Ummæli einstakra ráðherra og þingmanna fyrr í vikunni hafa gefið til kynna gífurlega vanþekkingu þingflokksins á framgangi yfirstandandi aðildarviðræðna,“ segir í tilkynningu frá stjórninni.

Þar segir einnig að yfirlýsingar ráðherra VG á borð við að umsóknarferlið „rífi allt samfélagið á hol“ séu úr lausu lofti gripnar. Ráðherrar VG eigi í ljósi stöðu sinnar að vera meðvitaðir um að aðildarviðræður Íslands við ESB séu í eðlilegum farvegi og hafi almennt gengið vel. „Þá er enn fremur mikilvægt að benda á að einstakir ráðherrar VG hafa leynt og ljóst tafið framgang aðildarviðræðna í störfum sínum, þvert á þjóðarhagsmuni.“   

Jafnframt segjast Ungir Evrópusinnar hafna innihaldslausum yfirlýsingum þingmanna VG sem og annarra flokka um meinta efnahagslega yfirburði Íslands gagnvart öðrum Evrópuríkjum. Þó að efnahagur Íslands sé í stöðugum bata, ógni íslenska krónan hagsmunum allra íslenskra heimila með þeim hætti að vandkvæði flestra evruríkja blikna í samanburði. Vinstri Græn hafi ekki talað fyrir öðrum valkostum Íslendinga í gjaldeyrismálum umfram íslensku krónuna í ríkisstjórnartíð sinni. Þá hafi þingflokkurinn ekki lagt fram neinar áætlanir um afnám gjaldeyrishafta.  

„Ráðherrar og þingmenn VG, sem og þingmenn annarra flokka í hópum Evrópuandstæðinga, verða að horfast í augu við að samningaviðræður Íslands og Evrópusambandsins hófust með eðlilegum og lýðræðislegum hætti. Ungir Evrópusinnar leggja áherslu á að Ísland mun aldrei verða aðildarríki Evrópusambandsins nema að undangenginni samþykkt landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðisgreiðsla um áframhald yfirstandandi samningaviðræðna er því með öllu ótímabær enda liggja helstu forsendur aðildarsamnings Íslands hvergi fyrir, til að mynda í gjaldeyris-, landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Nær væri að Evrópuandstæðingar á Alþingi leggðu sig fram við að veita Íslendingum tækifæri til að taka afstöðu til fullmótaðs aðildarsamnings við Evrópusambandið hið fyrsta,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert