Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur hefur lagt til við menningar- og ferðamálaráð borgarinnar að listaverkinu Svörtu keilunni verði komið fyrir á hellulögðu torgi á horni Kirkjustrætis og Thorvaldsensstrætis. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur ekki við hæfi að staðsetja sundrungartákn á þessum sögufræga stað þjóðarinnar.
Málið var tekið fyrir á fundi menningar- og ferðamálaráðs í byrjun vikunnar. Svarta keilan - minnisvarði um borgaralega óhlýðni eftir Santiago Sierra stendur í dag fyrir utan Alþingishúsið, en Listasafn Reykjavíkur fékk það að gjöf frá listamanninum fyrr á árinu. Menningar- og ferðamálaráð samþykkti að fá álit forsætisnefndar Alþingis á nýrri staðsetningu áður en samþykkt verður að færa verkið.
Fulltrúi Vinstri-grænna fagnaði tillögunni og lét bóka, að þótt koma verksins hefði staðið í nokkru samhengi við Búsáhaldabyltinguna árið 2009 hefði það miklu breiðari sögulega skírskotun. „Svarta keilan er fallegur og nauðsynlegur minnisvarði um borgaralega óhlýðni og þar með um sameiningarkraft einstaklinga gagnvart ríki og yfirvöldum.“
Þessu var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins ósammála en í bókun hans segir: „Austurvöllur er í miðri Kvosinni sem er einn sögufrægasti staður þjóðarinnar ásamt Þingvöllum þar sem er ekkert annað en blóm, tré og gras ásamt styttu af Jóni Sigurðssyni sem er og var sameiningartákn og ekki er við hæfi að staðsetja sundrungartákn á þessum sögufræga stað þjóðarinnar.“