Sjálfstæðismenn vilja breyta reglum um vínveitingar

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. Júlíus Vífill Ingvarsson

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu til á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær að reglum um vínveitingaleyfi verði breytt þannig að þær komi ekki í veg fyrir dvalarheimili aldraðra geti fengið leyfi til að selja áfengi.  

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að málsmeðferðarreglur borgarráðs um veitinga- og gististaði séu tiltölulega þröngar og þegar þær voru settar hafi ekki verið komnar fram tillögur um að vera með vínveitingaleyfi á dvalarheimilum.

„Við lögðum til að reglum um vínveitingaleyfi yrði breytt þannig að þær komi ekki í veg fyrir að dvalarheimili aldraðra geti fengið leyfi til að selja áfengi. Núgildandi reglur eru afdráttarlausar hvað það varðar að heimila ekki rekstur vínveitingahúsa í íbúðarhverfum en dvalarheimili aldraðra eru flest í hverfum sem skilgreind eru sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi.“

Auðvelt að breyta reglunum

„Okkar viðhorf er að það eigi að greiða úr þeim málum sem koma upp, en ekki flækja það sem einfalt er. Borgarráð setti sér málsmeðferðarreglur og þeim er auðvelt að breyta,“ segir Júlíus. „Það er sjálfsagt að Reykjavíkurborg hafi ákveðna festu, en sú festa má ekki koma í veg fyrir það að eðlileg mál fái afgreiðslu með sem auðveldustum og skjótustum hætti.“

Hann segir að sú hugmynd hafi komið upp í þessu samhengi að breyta þurfi aðalskipulagi Reykjavíkur til þess að dvalarheimili geti verið með áfengi á boðstólum en þá er verið að taka lengri leiðina heim. „Það tekur engan tíma að breyta reglum sem í ljós hefur komið að eru of þröngar. Að breyta aðalskipulagi getur tekið heilt ár. Hvort dvalarheimili vilja nýta sér það að mega veita vín er svo auðvitað þeirra mál og þeirra sem þar búa. Reykjavíkurborg á að opna leiðir þegar með þarf og þess vegna er þessi tillaga lögð fram.“

Óeðlilegt að búast við hættu

Tillagan var lögð fram í gær, henni var frestað og Júlíus segist búast við því að hún verði afgreidd í næstu viku.

Hann segist vonast til þess að hún gangi í gegn og segist persónulega ekki sjá neitt því  til fyrirstöðu að dvalarheimili fái vínveitingaleyfi. „Mér finnst það nokkuð óeðlilegt að gera því skóna að að það sé einhver hætta því samfara að opna fyrir vínveitingar á stöðum sem þessum, umfram aðra staði. Ég næ ekki slíkri rökræðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert