Löggæsla við rússneska sendiráðið

Lögreglumenn standa vörð fyrir utan rússneska sendiráðið við Garðastræti í Reykjavík en þar fara nú fram friðsamleg mótmæli vegna máls stúlknanna í rússnesku pönksveitinni Pussy Riot. Dómur verður kveðinn upp í Moskvu kl. 11 í dag.

Lögreglan hefur girt svæði í kringum sendiráðið af en töluverður fjöldi mótmælenda er á staðnum. Margir mótmælendur bera lambhúsettur sem eru einkennandi fyrir Pussy Riot. Samkvæmt ljósmyndara mbl.is eru um 100 mótmælendur á staðnum og um tíu lögreglumenn. Sungin eru hvatningarorð um að frelsa Pussy Riot.

Meðal mótmælenda eru þingmennirnir Mörður Árnason, Margrét Tryggvadóttir og Birgittta Jónsdóttir.

Það er ungliðahreyfing Amnesty International sem stendur fyrir mótmælunum en sambærileg mótmæli fara nú fram víða um heim.

Þrjár konur úr hljómsveitinni Pussy Riot hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í mars fyrir að flytja pönkbæn gegn Pútín forseta í kirkju í Moskvu. Mál stúlknanna hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim og margir þekktir einstaklingar lýst yfir stuðningi sínum við stúlkurnar, m.a. Madonna og Björk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert