Eldur kviknaði í sumarbústað í Reykholti um klukkan átta í kvöld en enginn var í bústaðnum þegar það gerðist samkvæmt fréttavef Ríkisútvarpsins. Maður sem var að vinna við bústaðinn varð eldsins var og kallaði til slökkviliðið. Hann reyndi að slökkva eldinn sem breiddist hratt út.
Fram kemur í fréttinni að nærliggjandi sumarbústaður hafi um tíma verið í hættu en slökkviliðsmenn hafi brugðist skjótt við eftir að þeir komu á svæðið og dælt vatni á svæðið. Þá segir að bústaðurinn sem kviknaði í hafi brunnið til kaldra kola.