Gróður skapar slysahættu

Á þessum stað, skammt neðan við Árbæjarstíflu er útsýni mjög …
Á þessum stað, skammt neðan við Árbæjarstíflu er útsýni mjög skert vegna gróðurs. Hjólareinin er hægra megin á myndinni en sést illa á blautum stígnum. Mbl.is/Sigurgeir S

Tré, lúpína og annar hárreistur gróður kemur víða í veg fyrir að þeir sem fara um göngu- og hjólreiðastígana í Elliðaárdal sjái umferð sem kemur á móti. Svipaðar aðstæður eru raunar víðar á höfuðborgarsvæðinu. Að mati blaðamanns sem þetta ritar er slysahættan í Elliðaárdal augljós.

Það bætir ekki úr skák að samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur verið töluvert um að göngufólk kvarti undan of miklum hraða hjólreiðamanna á þessari leið. 

Stígurinn sem um ræðir liggur sunnan við og meðfram Elliðaánum, það er að segja Breiðholtsmegin, og fer m.a. framhjá Árbæjarstíflunni. Stígnum var á sínum tíma skipt þannig að þriðjungur hans var merktur sem hjólarein en afgangurinn er ætlaður gangandi vegfarendum. Þegar farið er upp dalinn er hjólareinin hægra megin á stígnum.

Reykjavíkurborg hefur raunar hætt að halda hjólareininni við en línan sem skiptir stígnum er engu að síður ágætlega greinileg og langflestir sem fara þarna um virða hana – reyndar þannig að stundum gengur virðingin fyrir skiptingunni fram úr hófi. Það hefur blaðamaður margoft fengið að reyna en hann hjólar stíginn nánast daglega. Þannig er býsna algengt þeir sem hjóla niður dalinn – og eru því vinstra megin á stígnum miðað við stefnu – víki seint og illa fyrir þeim sem eru að hjóla upp dalinn og eru hægra megin á stígnum miðað við stefnu. Það er eiginlega eins og sumir hjólreiðamenn haldi að þeir megi ekki hjóla nema á hjólareininni.

Eykur hættu á árekstrum

Ekkert af þessu myndi þó skipta miklu máli ef útsýn yfir stíginn væri góð en svo er alls ekki. Á allmörgum stöðum við stíginn skyggir gróður svo á stíginn að hann býr til blindbeygjur og jafnvel blindhæðir. Vegna þess hversu illa sést fram á stíginn er augljóslega meiri hætta á að hjólreiðamenn skelli saman og þetta hlýtur einnig að auka hættuna á árekstri hjólreiðamanna og gangandi vegfaranda.

Slíkt er ekkert grín, sérstaklega ekki þar sem á stígnum er ágætlega brött brekka en eins og allir vita fara hjól aldrei hraðar en þegar þeim er hjólað niður brekkur. Þar að auki eru ýmiskonar farartæki þarna á ferð, m.a. rafmagnsvespur og kraftmikil rafmagnsreiðhjól.

Verulega mætti bæta ástandið og auka öryggið með því einu að fella nokkur tré, klippa önnur og slá lúpínubreiðurnar sem vaxa við stíginn.

Hvetja borgara til klippinga

Ábendingu um ofvöxtinn í gróðrinum var komið til Reykjavíkurborgar á miðvikudag.
Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri borgarinnar, sagði að sínir menn myndu skoða aðstæður en bætti við að þeirra hlutverk væri að sjá til þess að gróður slútti hvorki yfir göngu- og hjólreiðastíga né yxi inn á þá. Þeir myndu ekki taka ákvörðun um hvort fella ætti tré eða snyrta gróður utan stíganna, eingöngu til að bæta sjónlínu fyrir hjólreiðamenn, heldur félli slíkt undir verksvið umferðarsérfræðinganna.

Pálmi Freyr Randversson, sérfræðingur í umferðarmálum hjá umferðarsviði, sagði að málið yrði skoðað og metið hvernig bæta mætti úr. Báðir þökkuðu fyrir ábendinguna.

Við þetta má kannski bæta að borgin leggur að íbúum að halda gróðri á lóðum í skefjum. „Trjágróður sem vex út fyrir lóðarmörk getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Reykjavíkurborg hvetur garðeigendur til að klippa tré sín svo þau hvorki hindri vegfarendur, hylji umferðarskilti né dragi úr götulýsingu,“ segir á vef borgarinnar. Þar eru einnig ákvæði um hversu langt tré megi ná út fyrir lóðamörk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert