Meira en 100 flugeldar fóru ekki í loftið

Flugeldasýningin á Menningarmótt í gærkvöldi, sem var í boði Vodafone …
Flugeldasýningin á Menningarmótt í gærkvöldi, sem var í boði Vodafone en skátarnir sáu um sjálfa framkvæmdina. mbl.is/Björn Jóhann

Rúmlega 100 af þeim  800 flugeldum, sem skjóta átti upp á flugeldasýningunni í lok Menningarnætur í gærkvöldi fóru ekki í loftið. Mistök voru gerð við tengingar á flugeldunum.

„Það komu í ljós grunsemdir þegar sýningin var rétt byrjuð um að það hefðu ekki allir flugeldarnir farið upp,“ segir Hilmar Már Aðalsteinsson, sem er í stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík, en sveitin hafði umsjón með sýningunni. 

„Það kom síðan í ljós þegar gámarnir sem við skjótum úr voru skoðaðir í morgun að þeir höfðu ekki allir farið upp. Þarna voru talsvert margar bombur ósprungnar og ennþá ofan í hólkunum. Þetta er raðtengt og við erum með tvöfalt kerfi, þannig að ef eitthvað klikkar þá tekur hitt kerfið við. Þetta eru bara mannleg mistök og það lítur út fyrir að það hafi verið gerð mistök í tengingum.“

Held að flestir hafi verið ánægðir

Að sögn Hilmars er þetta í fyrsta skiptið sem þetta gerist í sýningum Hjálparsveitarinnar, en hún er langstærsti aðilinn í flugeldasýningum hér á landi og er langur undirbúningur að baki sýningu sem þessari. „Við hönnum sýninguna í tölvuforriti, sem síðan stjórnar henni.“

En hvað á að gera við flugeldana sem ekki sprungu í gær? „Þeir fara upp, en það er samkomulagsatriði á milli okkar og Vodafone, sem kostar sýninguna, hvenær það verður. Kannski verður bara enn flottari sýning á næsta ári, eða við gerum þetta við eitthvert annað tilefni. En flugeldarnir fara ekki í förgun og það er enginn galli í þeim.“

Spurður að því hvort Hjálparsveitinni hafi borist einhverjar kvartanir frá óánægðum gestum Menningarnætur segir Hilmar svo ekki vera. „En ég hef heyrt utan að mér að fólk var hissa á því hvað þetta var lítið í byrjun. En ég held að flestir hafi verið ánægðir með sýninguna í heild.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert