Níu líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir klukkan tvö í nótt til klukkan sex í morgun. Allar voru þær á miðborgarsvæðinu.
Einn árásarmaður er vistaður í fangageymslu eftir líkamsárás á Laugavegi við Klapparstíg um tvöleytið í nótt. Sá sem fyrir þeirri árás varð var fluttur meðvitundarlaus á slysadeild með sjúkrabifreið. Í flestum tilfellum voru þessar skráðu líkamsárásir pústrar milli ölvaðra einstaklinga og málsatvik óljós, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Töluverður erill var hjá lögreglu þegar leið á nóttina vegna ölvunar. Fjöldi fólks var á götum miðborgarinnar fram undir morgun.
Öflug löggæsla var í miðborginni í alla nótt og tókst lögreglumönnum margsinnis að stilla til friðar og koma þannig í veg fyrir frekari vandræði, segir í dagbók lögreglunnar eftir nóttina.