Aftur dregur úr umferð um Kjalveg

Sólarhringsumferð um Kjalveg.
Sólarhringsumferð um Kjalveg. Mynd/Vegagerðin

Umferð um Kjalveg hefur minnkað um 22% í ár og er orðin svipuð og verið hefur frá árinu 2001, eða um 70 bílar á sólarhring á sumrin og 25-30 bílar allt árið. Umferðin í fyrrasumar var hins vegar mun meiri og jókst um 26% frá fyrra ári. Þetta kemur fram á vefsvæði Vegagerðarinnar.

Þá er útlit fyrir mikinn samdrátt í umferð um hálendið ef marka má teljara á Kjalvegi við Kolku, Blöndulón. Umferð hefur dregist saman um 22% það sem af er ári miðað við sambærilegt tímabil árið 2011.

„Aldrei hefur umferð dregist jafn mikið saman á milli ára frá því að talningar hófust, á þessum stað. Á hitt ber að líta að umferð sveiflast mikið á hálendinu, þannig jókst hún til dæmis mjög mikið á milli áranna 2010 og 2011 eða 26%, sem er mesta aukning milli ára, fram að þessu. Þannig að umferðin virðist vera að leiðrétta sig niður í svipað og var fyrir árið 2011,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Verði niðurstaðan með þeim hætti sem nú lítur út fyrir hefur umferð um hálendið í raun ekki aukist heldur staðið í stað síðustu 10 árin. „Þetta er áhugavert í ljósi þess að oft heyrist að umferð um hálendið sé að aukast mikið, þá er það ekki endilega svo, aukning eitt árið kann að ganga til baka strax næsta ár á eftir miðað við reynsluna tvö síðustu ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert