Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo voru alls 26.666 manns í alvarlegum vanskilum 1. ágúst sl., þar af 17.511 karlar. Jafngildir þetta nærri 9% af þeim sem eru á þjóðskrá, 18 ára og eldri. Hafa alvarleg vanskil einstaklinga aldrei verið meiri frá því að Creditinfo fór að taka þessar upplýsingar saman í ársbyrjun 2006.
Um er að ræða skuldakröfur sem eru komnar í milli- eða löginnheimtu, eftir að hafa verið í hefðbundnu innheimtuferli án árangurs, og mörg þeirra fengið afgreiðslu dómstóla og sýslumannsembætta. Um margs konar skuldir er að ræða, allt frá 40 þúsund króna neyslulánum upp í tugmilljóna kröfur vegna íbúðalána. Hafa kröfurnar verið að malla í kerfinu í allt að 120 daga áður en þær eru skráðar sem alvarleg vanskil. Einstaklingar sem ekki ná að greiða upp skráðar kröfur eru að hámarki á vanskilaskrá í fjögur ár. Heldur hefur dregið úr aukningunni á vanskilaskrá á þessu ári en í ágúst 2011 voru 25.518 manns í alvarlegum vanskilum. Skipt eftir landshlutum eru vanskilin hlutfallslega mest á Suðurnesjum, eða hjá 16% íbúa eldri en 18 ára, 10% á Suðurlandi og 9,5% á höfuðborgarsvæðinu. Eftir fjölskylduformi eru alvarleg vanskil mest hjá körlum og einstæðum mæðrum og feðrum.
Koma þessar upplýsingar Creditinfo ágætlega heim og saman við það sem Unnur Gunnarsdóttir, nýráðin forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði í viðtali í síðasta Viðskiptablaði Morgunblaðsins. Þar sagði hún m.a. að búið væri að skapa svo miklar væntingar og fyrirheit um aðgerðir fyrir skuldara að greiðsluvilji almennings hefði minnkað. „Skuldarar hafa talið, í kannski of miklum mæli, að þeir hafi haft góða ástæðu til að halda að sér höndum við að standa í skilum á afborgunum af lánum,“ sagði Unnur.
Samúel Ásgeir White, forstöðumaður fyrirtækjasviðs hjá Creditinfo, segist geta tekið undir með forstjóra FME að svo virðist sem greiðsluvilji almennings hafi ekki aukist eftir hrunið. Vanskilaupplýsingar Creditinfo bendi einmitt til þess að vanskil einstaklinga aukist jafnt og þétt. Í raun séu þær í sögulegu hámarki, sé litið aftur til ársins 2006.
Samúel segir þetta athyglisvert í ljósi þess að atvinnuleysi hafi minnkað hlutfallslega, hagvöxtur aukist og launavísitalan hækkað. „Ég held að margir séu að bíða og vona að skuldir verði felldar niður eða lækkaðar,“ segir Samúel.
Embætti Umboðsmanns skuldara fær til sín mál þeirra einstaklinga sem komnir eru í mikinn greiðslu- og skuldavanda. Frá því að embættið tók til starfa eftir hrun hafa 4.180 umsóknir borist um greiðsluaðlögun. Frá 1. ágúst 2010 hafa ráðgjafar embættisins fengið 10.600 heimsóknir og að jafnaði notfæra um 800 manns sér símaþjónustu í hverjum mánuði.
Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, tekur einnig undir með forstjóra FME. Fólk hafi eðlilega verið að bíða eftir úrræðum og haldið að sér höndum. Bendir hún á að í 10-15% tilvika þar sem beiðni um greiðsluaðlögun er hafnað er það vegna þess að viðkomandi skuldari hefur haft næga greiðslugetu.
Ásta segir óvissuna vegna gengislánadóma einnig bagalega og hún hafi einnig áhrif á greiðsluvilja almennings.
„Auðvitað vildu allir að þessari óvissu væri eytt. Því miður þurfum við að bíða enn frekar eftir niðurstöðu dómstóla,“ segir umboðsmaður skuldara.