Fóru ekki eftir neyðarlögum

Víglundur Þorsteinsson og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Víglundur Þorsteinsson og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn

Víg­lund­ur Þor­steins­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður BM Vallár, seg­ir að rík­is­stjórn­in hafi ekki farið eft­ir regl­um neyðarlaga sem sett voru í októ­ber 2008. Þetta hafi stjórn­in gert án þess að afla sér umboðs frá Alþingi eða nýrr­ar laga­heim­ild­ar.

Víg­lund­ur hef­ur í rúmt ár reynt að afla sér upp­lýs­inga um þá samn­inga sem gerðir voru um yf­ir­færslu lána frá gömlu bönk­un­um yfir til nýju bank­anna. Hann seg­ir að ástæðan fyr­ir þessu sé sú að í mars 2011 birti fjár­málaráðherra skýrslu um þessi mál sem Víg­lund­ur seg­ir að lýsi at­b­urðarás sem ekki sé í sam­hengi við regl­ur neyðarlag­anna. Hann seg­ir að sér hafi gengið illa að fá umbeðin gögn því fjár­málaráðuneytið hafi neitað að af­henda gögn­in. Úrsk­urðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál hafi hins veg­ar veitt hon­um tak­markaðan aðgang að gögn­un­um.

Fórnuðu hags­mun­um heim­ila og fyr­ir­tækja

Víg­lund­ur bend­ir á að neyðarlög­in hafi kveðið á um að færa ætti út­lán viðskipta­vina bank­anna yfir til nýju bank­anna „á bók­færðu verði að teknu til­liti til áætlaðra af­skrifta ein­stakra út­lána.“ Víg­lund­ur seg­ir að nú­ver­andi rík­is­stjórn hafi á fundi sín­um 3. mars 2009 ákveðið að hverfa frá aðgerðum sem grund­völluðust á neyðarlög­un­um. Með þessu hafi verið horfið frá „þeirri skjald­borg“ sem neyðarlög­in hafi reist. Víg­lund­ur seg­ir að ákveðið hafi verið að fórna hags­mun­um ís­lenskra heim­ila og fyr­ir­tækja í þeim til­gangi að greiða fyr­ir fram­gang ESB-um­sókn­ar Íslands til að friðmæl­ast við Breta og Hol­lend­inga vegna Ices­a­ve.

Þegar gengið var frá upp­gjöri milli nýju og gömlu bank­anna var staða gamla Kaupþings gagn­vart nýja Kaupþingi miklu verri en staða hinna gömlu bank­anna. Skila­nefnd Kaupþings skuldaði nefni­lega bank­an­um 38 millj­arða en í hinum bönk­un­um var staðan þannig að nýju bank­arn­ir skulduðu þeim gömlu.

BM Vallá á „veiðilista“

Víg­lund­ur vitn­ar í skýrslu fjár­málaráðherra frá mars á síðasta ári, en hann seg­ir að í henni megi lesa lýs­ingu á því hvernig ís­lenska ríkið af­henti skila­nefnd Kaupþings, sem full­trúa er­lendra kröfu­hafa, nýja bank­ann og gaf þeim veiðileyfi á skuld­ara nýja bank­ans til að standa und­ir hall­an­um sem skila­nefnd­in var í. Víg­lund­ur seg­ir að það segi sig sjálft að til þess að hafa ein­hvern ár­ang­ur hafi ekki verið neitt jafn­ræði gagn­vart skuld­ur­um held­ur hafi verið sótt að þeim sem „eitt­hvert slát­ur“ var í; ein­stak­ling­um jafnt sem fyr­ir­tækj­um.

Víg­lund­ur seg­ir að í skýrslu fjár­málaráðherra komi fram að út­bú­inn hafi verið listi yfir skuld­ara sem vinna megi á, eins kon­ar „veiðilisti“. Hann seg­ist hafa fengið staðfest hjá úr­sk­urðar­nefnd upp­lýs­inga­mála að sitt fyr­ir­tæki, BM Vallá, hafi verið á þess­um lista.

Gagn­rýna stjórn­völd harðlega

Víg­lund­ur og Sig­urður G. Guðjóns­son hrl. gagn­rýna harðlega verklag stjórn­valda í kjöl­far efna­hags­hruns­ins og starfsaðferðir Ari­on banka við yf­ir­töku BM Vallár. Á blaðamanna­fundi í dag lögðu þeir fram gögn sem þeir segja benda til að ráðherr­ar, ein­stak­ir starfs­menn nýju bank­anna og skila­nefnd­anna hafi gerst brot­leg­ir við ýmis ákvæði ís­lenskra laga sem refs­ing­ar eru lagðar við.

Víg­lund­ur seg­ir að sam­hliða því að semja við Breta og Hol­lend­inga um Ices­a­ve hafi rík­is­stjórn­in samið við skila­nefnd­ir Kaupþings og Glitn­is um að þær tækju við rík­is­bönk­un­um, Ari­on banka og Íslands­banka. Rík­is­stjórn­in hafi einka­vætt bank­ana án laga­heim­ild­ar og lagt þeim til áhættu­fé án laga­heim­ild­ar. Alþingi hafi aldrei verið upp­lýst um þetta ferli á meðan á því stóð. Heim­ild til að und­ir­rita þessa samn­inga, sem löngu var búið að und­ir­rita, hafi verið lætt inn í bandorm sem samþykkt­ur var á Alþingi að kvöldi Þor­láks­messu árið 2009. Alþingi hafi aldrei fengið að sjá þessa samn­inga.

Víg­lund­ur ætl­ar að birta öll gögn sem hann hef­ur aflað sér um þessi mál á net­inu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert