Gagnrýna hækkun á nemakortum Strætó

Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu (UVGh) harma ákvörðun Strætó að hækka verð á nemakortum. Þau segja lágt verð þeirra hafa verið forsendu þess að nemar ferðist á umhverfisvænan máta. Kortið kostar nú 38.500 en kostaði 20 þúsund kr. síðasta haust.

Verðið var síðan hækkað í 30 þúsund krónur síðustu áramót en þá var gildistíminn lengdur úr níu mánuðum í tólf.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi UVGh í gær. Nemar séu stærsti notendahópur Strætó og er því hætt við að þeir muni í auknum mæli hætta að nýta sér umhverfisvænar almenningssamgöngur, hafi þeir ekki efni á því. Nemar séu eðli málsins samkvæmt ekki með sömu ráðstöfunartekjur og fólk á vinnumarkaði og því  nauðsynlegt að sú þjónusta sem þeim standi til boða taki mið af því.

„Nemar hafa treyst á ódýr nemakort Strætó síðustu ár og er þessi breyting því óásættanleg. Þriggja mánaða lenging gildistíma, sem nemar hafa takmörkuð not af enda eru skólar almennt ekki starfræktir á sumrin, er alls ekki réttlæting fyrir tvöföldun þess gjalds sem krafist var ári fyrr. Þess utan er upphæðin sem krafist er fyrir nemakortin í ár einfaldlega of há, sérstaklega með tilkomu hækkaðra skólagjalda Háskóla Íslands.“

Tilraunaverkefnið komið á endastöð

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir hækkunina hluta af ákveðinni þróun varðandi niðurgreiðslur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem hún komi til vegna ábendingar umboðsmanns barna. „Þróunin hófst árið 2007. Þá var ákveðið að ráðst í tilraunaverkefni og skoða hvort það myndi leiða til breytts ferðamynsturs að nemendur fengju frítt í strætó, þ.e. að sveitarfélögin niðurgreiddu fargjöldin að fullu,“ segir Reynir. Það hafi hinsvegar ekki gengið eftir, aðeins 5-6.000 manns af 30 þúsund nýttu sér strætó það skólaárið.

„Eftir að kreppan skall á árið 2008 var ráðist í að setja gjald og þrátt fyrir gjaldtökuna hefur þeim sem nýta sér kortið fjölgað hægt og býtandi. Sveitarfélögin ákváðu síðan að draga sig út úr þessu verkefni og eru einhvers staðar á þeirri vegferð. Það má segja að það sé nánast komið á endastöð. Svo barst athugasemd frá Umboðsmanni barna þar sem hann taldi mismunun felast í því að nemendum á framhalds- og háskólastigi standi þetta til boða á niðurgreiddu verði, lægra en því sem ungmennum í grunnskóla bauðst á þeim tíma,“ segir Reynir.

Til þess að jafna muninn varð annað hvort að lækka alla í nemafargjaldið eða hækka alla í ungmennafargjaldið. „Stjórn Strætó ákvað að fara ákveðna millileið og hækka nemakortið og bjóða grunnskólanemum kost á að kaupa það. En inni í þessum 38.500 krónum er kominn lengri gildistími, nemakortið gildir í tólf mánuði í stað níu,“ segir Reynir. Sé gert ráð fyrir að kortið sé notað tvisvar á dag, hvern virkan dag í tólf mánuði, kosti ferðin aðeins 76 krónur. „Kannanir sýna að þeir sem á annað borð fjárfesta í svona korti nota strætó oftar, þ.e. líka um helgar, í og úr tómstundum og aðra afþreyingu, þannig að miðað við það þá er ferðalagið enn ódýrara,“ segir Reynir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert