Fjármálaráðuneytið hafnar því að ekki hafi verið brugðist við málaleitan Víglundar Þorsteinssonar, fyrrverandi stjórnarformanns BM Vallár, með fullnægjandi hætti. Dylgjum um að ráðuneytið, ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar hafi haft afskipti af einstökum lánum eða lánveitendum er vísað á bug.
Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Víglundar, segir að eigendur BM Vallár hafi fengið aðra meðferð en mörg önnur fyrirtæki sem hafi verið í svipaðri stöðu og að eigendur fyrirtækisins hafi lagt fram trúverðuga áætlun um hvernig endurreisa mætti fyrirtækið. Hann segir að skýringar á því hvernig unnið var í málum BM Vallár hafi að hluta til verið að finna í góðu eignasafni fyrirtækisins sem auðvelt hefði verið að brjóta upp og selja að nýju.
Í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu segir að það hafi afhent þau gögn sem það hefur undir höndum og því hefur verið heimilt að afhenda. Síðasta erindið hafi borist 10. júlí síðastliðinn og vinni ráðuneytið að svari við því.
„Fjármálaráðuneytið hafnar því að ekki hafi verið brugðist við málaleitan Víglundar með fullnægjandi hætti. Dylgjum um að ráðuneytið, ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar hafi haft afskipti af einstökum lánum eða lánveitendum er alfarið vísað á bug,“ segir í yfirlýsingunni.