Sýnir ESB-andstöðu á óhefðbundin hátt

„Þetta er náttúrulega fyrst og fremst komið til vegna þess að ég er mikill ESB-andstæðingur, eðlilega sem bóndi á Íslandi,“ segir Sæmundur Jón Jónsson, bóndi á Árbæ í Hornafirði, en hann brá á það ráð í sumar að mála fána Evrópusambandsins aftan á mykjudreifarann á bænum og lýsa þar með afstöðu sinni til inngöngu í sambandið í verki.

Hann segir að hugmyndin hafi vaknað í kjölfar framtaks á vegum Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, þar sem bændum hefur verið boðið að kaupa stóra límmiða með boðskap gegn inngöngu í ESB til þess að líma á heyrúllur og staðsetja út við vegi.

„Þetta var hugmynd sem kviknaði út frá því. Ég er sjálfur ekki með rúlluheyskap og gat því ekki skellt svona límmiðum á rúllurnar hjá mér. Ég ákvað því að reyna að gera eitthvað annað frumlegt hérna hjá mér,“ en Sæmundur rekur kúabú og framleiðir meðal annars eigin ís á markað.

Þegar mykjudreifarinn er ekki í notkun er hann að sögn Sæmundar staðsettur út við veg. „Eftir að ég var búinn að nota dreifarann hefur hann staðið út við þjóðveg og fólk hefur séð merkið frekar útatað. Það voru einhverjir sem spurðu mig hvers vegna ég málaði ekki rautt bannmerki á fánann en ég svaraði að þá væri eins og ég væri að gefa skít í það en ekki ESB,“ segir hann og hlær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka