Afgreiðsla á svonefndri 110% leið, sem farin var til að leysa skuldavanda húseigenda, tók langan tíma og bitnaði á lántakendum. Flækjustigið jókst til muna fyrir þá sem voru í fleiri en einu úrræði samtímis. Ágallar kerfisins urðu sýnilegir við útreikning vaxtabóta í ágúst.
Þetta fullyrðir Jón Helgi Óskarsson viðurkenndur bókari. Þannig hafi einn af skjólstæðingum hans, sem var hvoru tveggja í greiðsluaðlögun og 110% leiðinni, orðið af vaxtabótum og vaxtaniðurgreiðslu, allt að 300 þúsund krónum, vegna seinagangs Íbúðalánasjóðs.
„Hans mál var afgreitt undir lok árs. Því var ekkert eftir af árinu til að safna vöxtum. Ef það hefði verið afgreitt fyrr þá hefðu orðið til gildir gjalddagar til að reikna út vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðslu.“
Fleira kom til því skjólstæðingurinn var í greiðsluaðlögun og mátti því ekki greiða af láninu.
Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, er þessu ósammála. „Við teljum að afgreiðsluhraði málsins hafi engin áhrif haft á útreikning vaxtabóta. Þá er eitthvað annað sem veldur, t.d. greiðsluaðlögun eins og í þessu tilviki. Ef menn hafa átt rétt á vaxtabótum á annað borð þá hefur það engin áhrif á hvoru megin við áramót við afgreiðum málið. Fólk sem er í 110% leiðinni og taldist hafa borgað ávann sér rétt til vaxtabóta. Réttur til vaxtabóta er sjálfstæður réttur og afgreiðsludagur 110% leiðarinnar á almennt ekki að hafa haft nein áhrif á fjárhæð vaxtabóta. Það er ekki hægt að útskýra það að menn fái ekki vaxtabætur með tilvísun til afgreiðsluhraða.“
Hópurinn sem var bæði í 110% leiðinni og greiðsluaðlögun á sama tíma átti að fá forgang í afgreiðslu að sögn Svanborgar Sigmarsdóttur, upplýsingafulltrúa umboðsmanns skuldara. „Þeir sem voru í þeim hópi fengu ekki samning um greiðsluaðlögun fyrr en afgreiðsla Íbúðalánasjóðs eða annarra lánardrottna lá fyrir.“ Jafnframt fengu sumir hverjir, sem voru ekki komnir með samning í janúar 2012 en voru í greiðsluskjóli, óháð 110% leiðinni, engar vaxtabætur.
„Við höfum sagt öllum þeim hóp að þeir geti kært úrskurðinn og farið fram á vaxtabætur,“ segir Svanborg. Um er að ræða 1.500-2.000 manns.
Jón Helgi gagnrýnir endurmat fasteignasala á húsnæði og endurútreikning lánanna. „Við endurútreikninginn var miðað við stöðu lána í byrjun janúar en ekki miðað við þann tímapunkt þegar afgreiðsla málsins fór fram, oft nánast ári seinna. Fasteignamatið fór gjarnan fram í lok árs en þá hafði staðan á láninu hækkað þessa 10-12 mánuði. Staðan á láninu var úrelt og það bitnaði á lántakendum. Á sama tíma hækkaði fasteignaverðið.
Þegar fólk var komið í 110% leiðina var lánið komið í 120-130% því verðbólgan var búin að éta upp ávinninginn. Þarna myndaðist ákveðin skekkja milli skuldar og eignar.“
Sigurður Erlingsson segir að samkvæmt samkomulagi um 110% leiðina hafi verið horft á stöðu lána um áramót og verðmat eignanna var ekki endurreiknað á sama tímapunkti og lánin. „Það hefði tafið gang mála til muna, orðið flóknara og matskenndara. Hækkun á húsnæðisverði á úrvinnslutíma 110% leiðarinnar ýkti þetta og menn sáu það ekki fyrr en verulega var liðið á úrvinnslutímann. Endurmat á húsnæðinu tók einnig sinn tíma.“