Áskorun að halda í við vöxt Schengen

Frá vegabréfaeftirlitinu í Leifsstöð.
Frá vegabréfaeftirlitinu í Leifsstöð.

Kjósi Ísland að eiga áfram aðild að Schengen-samstarfinu yrði helsta áskorunin að halda í við samstarfið og aukinn vöxt þess. Sníða þyrfti íslenska lögreglu og stjórnsýslu að samstarfinu til að nýta verkfæri þess sem best. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu innanríkisráðherra um Schengen.

Skýrslan var unnin að beiðni Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks, og fleiri þingmanna. Hún er 33 blaðsíður og skiptist í tvo hluta: annars vegar samstarfið sjálft, markmið þess og framkvæmd og svo sérstök athugunarefni sem farið var fram á að beiðni þingmannanna.

Í síðari hlutanum er til að mynda farið yfir kosti og galla Schengen-samstarfsins. Þar segir að helsti kosturinn sé tvímælalaust fyrir einstaklinga að geta ferðast víðsvegar um Evrópu án reglubundins persónueftirlits. Með því er viðkomandi laus við tafir og annað umstang sem fylgir vegabréfaskoðun á landamærum. „Í þessu felst traust stjórnvalda á einstaklinginn og er með þessu tryggð hin frjálsa för einstaklinga um yfirráðasvæði samstarfsríkjanna. Í þessu felst kjarni Schengen samstarfsins.“

Stærsti gallinn sé hins vegar sá að hin frjálsa för takmarkar möguleika löggæsluyfirvalda til að hafa eftirlit með fólki sem kemur til landsins frá aðildarríkjum Schengen. „Til að vega upp þennan galla sem Schengen aðild hefur í för með sér eru mótvægisaðgerðir af ýmsu tagi og þátttaka í þeim, þar á meðal viðamikilli lögreglusamvinnu.“

Ekki bein tengsl við skipulagða glæpahópa

Í skýrslunni segir einnig að ekki sé hægt að greina bein tengsl milli inngöngu Íslands í Schengen og þeirri aukningu í skipulagðri brotastarfsemi sem orðið hefur hér á landi undanfarin ár. „Sem dæmi má taka standa Bretar frammi fyrir mikilli aukningu slíkrar glæpastarfsemi ásamt mikilli aukningu útlendinga í landinu, þrátt fyrir að standa utan Schengen samstarfsins.“

Þá segir að íslensk stjórnvöld, og þá aðallega lögreglan, þurfi að hafa kost á því að nýta þær heimildir sem settar hafa verið í íslenskum lögum auk þeirra verkfæra sem Schengen útvegar.

EES-samstarfið kæmist í uppnám

Undir kaflanum „Sérstakar hættur sem ráðherra telur að huga verði að“ segir að sjálfsagt sé að vega og meta hvort ágóðinn af þátttöku í Schengen-samstarfinu vegi þyngra en ókostirnir sem stafa af hinni frjálsu för. Grundvöllurinn af slíku hagsmunamati sé upplýst umræða.

Myndi Ísland hætta í samstarfinu yrði það til að setja þyrfti upp landamæraeftirlit vegna alls flugs til og frá landinu á Keflavíkurflugvelli, og væntanlega ráða fleiri lögreglumenn til að sinna því eftirliti. „Aðgangur að Schengen upplýsingakerfinu myndi lokast en það þýðir að þegar einstaklingur birtist á landamærum okkar, yrði vegabréf hans vissulega skoðað en ekki væri mögulegt að fletta honum upp í SIS kerfinu til að sjá hvort einstaklingurinn er eftirlýstur á Schengen svæðinu eða ekki.“

Réttindi EES-borgara til búsetu og dvalar hér á landi myndi ekki breytast og fjöldi útlendinga því ólíklega breytast. Aðgengi að evrópskri lögreglusamvinnu myndi dragast umtalsvert saman, og væri mjög líklega stefnt í hættu.

Úrsögn úr Schengen myndi einnig þýða upptöku landamæraeftirlits gagnvart Norðurlöndum og þar með væntanlega úrsögn úr Norræna vegabréfasamningnum. „Spurning er hvaða önnur áhrif fylgdu í kjölfarið varðandi samstarf við Norðurlönd en það hefur verið afar náið um langa hríð. Þá myndi úrsögn úr Schengen samstarfinu loka á þá greiðu og skilvirku lögreglusamvinnu sem Ísland hefur nú aðgengi að, auk þess sem EES samstarfið kæmist fyrirsjáanlega í uppnám vegna úrsagnarinnar.“

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Ómar Óskarsson
Leifsstöð.
Leifsstöð. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert