Engar breytingar verða gerðar á innlendri landbúnaðarstefnu, lagaumgjörð eða stjórnsýslu, vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu, fyrr en aðildarsamningur hefur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er afstaða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og kemur fram í svari við fyrirspurn Atla Gíslasonar og Jóns Bjarnasonar.
Í svari ráðherra segir að vinna við gerð aðgerðaáætlunar til að svara opnunarviðmiði ESB í samningskaflanum um landbúnað og dreifbýlisþróun sé lokið og hafi hún verið send utanríkismálanefnd Alþingis til kynningar.
Aðgerðaráætlunin byggist á þeim grunni að engar breytingar verði gerðar fyrr en þjóðin hefur samþykkt samning í atkvæðagreiðslu. Hún felur þó í sér vilyrði íslenskra stjórnvalda um með hvaða hætti Ísland hyggst haga undirbúningsaðgerðum á næstu misserum og í aðdraganda aðildar, og er tiltekið að stjórnvöld muni hlutast til um að vinna nauðsynleg frumvarpsdrög. Þingleg meðferð yrði hins vegar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þeir Atli og Jón spurðu einnig hvort ESB geti krafist þess að tilteknum áföngum verði náð í aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að löggjöf ESB áður en samningskaflanum um landbúnað verður lokað. Í svari ráðherra segir að viðræður um samningskaflann séu ekki hafnar og því ótímabært að geta sér til um hvort og þá hvernig ESB kunni að setja fram lokunarviðmið í kaflanum. „Rýniskýrsla ESB um landbúnaðarkafla viðræðnanna nefnir stefnu íslenskra stjórnvalda um að ekki verði ráðist í breytingar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú aðgerðaáætlun sem nú liggur fyrir byggist á þeirri nálgun.“