Matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hefur stöðvað sölu og innkallað úr verslunum vítamín frá BioTech. Talið er að varan innihaldi ólögleg lyf en um fæðubótarefni er að ræða.
Á vef Matvælastofnunar kemur fram að varan innihaldi valerian root powder (Valeriana officinalis) sem fengið hefur B-flokkun hjá Lyfjastofnun. Þessi flokkun þýðir að vara með þessu innihaldsefni getur fallið undir lyfjalög. Leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf sker Lyfjastofnun úr um samanber lög um matvæli. Einnig eru aðrar athugasemdir gerðar við vöruna.
Vöruheiti: Vitamin B-Complex 75 Complete Diatery Supplement with Antioxidants and Herbs.
Ábyrgðaraðili; framleiðandi, innflytjandi og/eða dreifingaraðili: Varan er framleidd fyrir BioTech USA í Bandaríkjunum. Innflutt til Íslands af Heilsusporti ehf. (Sportlífi), Síðumúla 1, 108 Reykjavík.
Áætluð dreifing innanlands: Verslanir Sportlífs (vefverslun og verslanir fyrirtækisins í Glæsibæ og Holtagörðum).
Eins hefur matvælaeftirlitið innkallað vöru sem nefnist StressCaps.
Varan inniheldur valerian root extract (Valeriana officinalis) og St. John's Wort extract (Hypericum perforatum) sem fengið hafa B-flokkun hjá Lyfjastofnun.
Ábyrgðaraðili; framleiðandi, innflytjandi og/eða dreifingaraðili: Varan er framleidd af FoodCaps ltd., Frakklandi. Innflutt til Íslands af Functional Food Products ehf./Vzell ehf., Reykjavík.
Áætluð dreifing innanlands: Verslanir Sportlífs Holtagörðum og Glæsibæ. Varan er ekki lengur í dreifingu, samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef Matvælastofnunar.