Mink hefur fjölgað gríðarlega á Straumsvíkursvæðinu og á þessum tíma eru fullorðnu dýrin að reka yrðlingana burtu. Svo dreifa þeir sér frá greninu og næsta bæjarfélag við er Hafnarfjörður. Þetta segir meindýraeyðir sem er gagnrýninn á stefnu stjórnvalda í málaflokknum.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í kvöld lentu ung hjón í því að fá mink inn á heimilið seint á föstudagskvöld og þurftu að glíma við hann fram á nótt. Konráð Magnússon hjá meindýraeftirlitinu Firringu segir það sérstakt að minkar leiti inn í hús en þeir geti villst þangað inn og er þá það forvitnin sem drífi þá áfram. Hann hafi einu sinni skotið mink inni á veitingatað í Hafnarfirði, en það var fyrir nokkrum árum.
Hann segir enga ástæðu til að leggja heimilið á annan endann til að ná dýrunum, þau eru svo forvitin að þau komi. Konráð segir að ef hann hefði fengið kallið hefði hann nú eflaust náð honum án þess að skemma nokkuð. „Þeir eru bara forvitnir og átta sig ekkert á hættum lífsins.“
Konráð segir að hægt sé að tala um fjölgun á mink alla strandlengjuna á Reykjanesi, sérstaklega eftir að hætt var að veiða hann af einhverju viti. Sjálfur leitar hann í Hafnarfirði og Garðabæ og í vorleitinni náist yfirleitt um fjörutíu til fimmtíu dýr. „En þetta eykst alltaf eftir því sem hætt er að borga mönnum almennt. Nú eru það aðeins við sem erum ráðnir sem fáum borgað. Þeir sem voru í þessu af áhugamennsku eru hættir að nenna þessu þar sem þeir fá ekki borgað og þá fjölgar minknum. Það er ekkert óeðlilegt við það.“
Hann segir nóg æti fyrir minkinn og skjól í hrauninu, og honum fjölgar þá aðeins áfram. „Meðan ekki er borgað fyrir dýrin þá nenna menn þessu ekki. Þetta er erfið vinna, að ganga fjöruna og klöngrast yfir hraun í tíu til tólf tíma á dag.“
Spurður hvort hann telji að mink muni fjölga áfram í íbúðahverfum á næstunni segir Konráð: „Ef þetta er stefna stjórnvalda, að hætta að greiða fyrir veiði á þessum dýrum, mink og tófu sem þarf að halda í skefjum, þá fjölgar dýrunum. Og þau þurfa að borða. Þegar þau eru búin með fuglinn fara þau á lömbin og kindurnar og svo fara þau inn í bæjarfélögin, í ruslið.“