Frá og með 2. september næstkomandi verður hægt að taka strætó frá Reykjavík til Akureyrar. Um er að ræða fyrsta sinn sem strætisvagnar ganga þá leið. „Við leggjum áherslu á að eignarhaldið sé hjá landshlutasamtökum. Leiðin norður er farin í samstarfi milli Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi, Norðvesturlandi og Eyþings,“ segir Einar Kristjánsson sviðsstjóri hjá Strætó BS.
„Okkar aðkoma lýtur aðallega að ráðgjöf og miðlun sérþekkingar sem safnast hefur saman hjá Strætó í gegnum árin. Við aðstoðum með skipulag, birtingu, útboð og eftirlit en reksturinn er að öðru leyti í höndum landshlutasamtakanna. Ætlunin er ekki sú að stóri bróðirinn Strætó BS taki yfir allar almenningssamgöngur á landsbyggðinni, landshlutasamtökin hafa staðarþekkinguna sem er nauðsynleg í verkefni sem þessu,“ segir Einar. „Ákvörðunarvald um þjónustustigið liggur því hjá samtökunum,“ bætir hann við.
Að sögn Einars er bifreiðin sem notuð er til ferðanna ekki hefðbundinn strætisvagn. „Um er að ræða svokallaðan „intercity“ vagn eða milliborgarvagnar, sem þekkst hafa í fjölda ára á hinum Norðurlöndunum. Þeir taka 53 farþega í sæti en hafa líka aðstöðu fyrir standandi farþega. Þannig er innréttingin frábrugðin venjulegri rútu,“ segir Einar og bætir við að þannig verði farþegum gert kleyft að velja hvort þeir vilji sitja eða standa eftir því hversu langt þeir ætla að ferðast með vagninum. Bílbelti verða í hverju sæti enda um langferðabíl að ræða.
Klósett og þráðlaust net á leiðinni
Að hans sögn verða spennandi nýjungar á boðstólnum í Akureyrarvagninum. „Við bíðum nú eftir vögnum sem koma til landsins í október, en í þeim er salerni sem eflaust mun nýtast vel á löngu ferðalagi. Auk þess verður þráðlaust net og posi fyrir greiðslukort,“ en Strætó vinnur nú að innleiðingu þráðlauss nets í alla sína vagna og byrja á landsbyggðinni.
Samkvæmt upplýsingum frá Einari tekur ferðin frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar um 6 klukkustundir, en inni í ferðinni er stopp í Staðarskála og farþegar geta vitanlega farið út á miðri leið.
Leið 57 mun aka alla leið frá Mjódd í Reykjavík til Akureyrar tvisvar á dag.
Fargjaldið fyrir alla leiðina verður 7.700 kr. og minnkar svo hlutfallslega eftir því hversu langt farþeginn kýs að fara. „Ef fólk pantar miðann með nokkurra daga fyrirvara fær það 15% afslátt og farmiðann sendan heim að dyrum,“ segir Einar.