Ellefu gengismál þingfest

Dómstólar taka þessi mál fyrir á næstu vikum.
Dómstólar taka þessi mál fyrir á næstu vikum. mbl.is/Hjörtur

Stefnt er að því að þingfesta á næstu vikum tíu mál þar sem tekist er á um útreikning gengislána. Efnahags og viðskiptaráðuneytið vonast eftir að það taki ekki nema um þrjá mánuði að fá niðurstöðu í málin á báðum dómstigum.

Þetta kemur fram í greinargerð sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur tekið saman um endurútreikning gengistryggðra lána og þá fyrirsjáanlegu óvissu sem ríkja mun þar til frekari dómar hafa verið upp kveðnir um gengislánin, endurútreikninga þeirra o.fl.

Vonast var til að unnt yrði að þingfesta þau ellefu mál sem um ræðir fyrir réttarhlé sumarsins en raunin varð sú að ekki náðist að þingfesta nema eitt mál fyrir þann tíma. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum verða hin málin þingfest nú að loknu réttarhléi og í síðasta lagi í lok september. Gert er ráð fyrir að dómstólar muni afgreiða málin eins fljótt og kostur er og að málsaðilar muni gera sitt ítrasta til að tryggja að frestir til framlagningar gagna verði sem stystir til að málin geti gengið hratt gegnum kerfið.

Ekki er talið nauðsynlegt að öll ellefu málin verði kláruð áður en hægt er að hefjast handa við endurútreikning. Líklegt er að tvö til þrjú mál skeri úr um stærstu álitaefnin þ.e. hvaða reikningsaðferð á að nota, hvenær lánþegi teljist hafa fullnaðarkvittun fyrir greiðslu af láninu og hversu miklu máli lengd lánstíma skipti en það er eitt af þeim atriðum sem Hæstiréttur tiltekur í dóminum frá 15. febrúar sl.

Fjármálafyrirtækin bjóða viðskiptavinum sínum úrræði vegna afborgana af ólögmætum gengistryggðum lánum sé eftir því leitað. T.d. bjóða Arion banki og Íslandsbanki viðskiptavinum sínum að greiða 5000 kr af hverri milljón af þeim lánum sem réttaróvissa er um. Landsbankinn skoðar hvert tilfelli sérstaklega ef eftir því er óskað til að leita leiða sem henta. Lýsing sendir út greiðsluseðla en gengur til samninga við lánþega um greiðsluferli ef óskað er eftir því. Þá geta þeir lánþegar sem hugsanlega hafa ofgreitt hjá Lýsingu greitt inn á sérstakan geymslureikning. Ekkert af ofangreindum fjármálafyrirtækjum fer út í innheimtuaðgerðir gagnvart viðskiptavinum sínum ef ekki er greitt af lánum.

Í greinargerð ráðuneytisins segir að þó að lög nr. 151/2010 hafi að nokkru tekið á þeirri óvissu sem var uppi á sínum tíma verður að teljast ólíklegt að lagasetning geti eytt þeirri óvissu sem enn er uppi um endurútreikning gengistryggðra lána. Í ljósi reynslunnar verður að telja líklegt að einhverjir lánþegar muni láta reyna á ítrustu kröfur sínar ef gripið verður til nýrra aðgerða eða lagsetningar. Því er hætta á að inngrip stjórnvalda áður en niðurstaða er fengin úr þeim dómsmálum sem ákveðið var að höfða myndi eingöngu auka á óvissuna og lengja þann tíma sem tekur að greiða úr málum varðandi endurútreikninginn. Því verður að telja ólíklegt að hægt sé að semja löggjöf sem nær því markmiði að ná sáttum í samfélaginu út af endurútreikningi gengistryggðra lána. Fari svo að mál að dragist fyrir dómstólum þarf þó að horfa til breytinga á lögum t.d. vegna fyrningarfresta. Þau mál þarf þá að skoða sérstaklega í samráði við innanríkisráðuneytið.

Greinargerð ráðuneytisins um gengislán

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert