Öll olíufélögin hafa í dag hækkað hjá sér verð á eldsneyti. Skeljungur reið á vaðið í morgun og munaði um tíma fimm krónum á hæsta og lægsta verði. Hækkun annarra félaga var þó ekki jafn mikil og hjá Shell sem er með enn dýrasta eldsneytið.
Algengasta verð á lítra á bensíni er nú 254,6 krónur hjá Shell en 252,7 hjá N1 og Olís.
Lægsta verð á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu er hjá Orkunni, 252,30 krónur lítrinn, en þar á eftir kemur Atlantsolía þar sem lítrinn kostar 252,4 krónur og hjá ÓB kostar lítrinn 252,5 krónur.
Þegar kemur að dísil er verð jafnara milli stóru olíufélaganna þriggja. Lítrinn kostar 254,9 krónur hjá Shell en 252,7 hjá N1 og Olís.
Hjá ÓB kostar lítrinn 254,5 krónur og hjá Atlantsolíu 254,4 krónur. Hjá Orkunni er ódýrast, greiða þarf 254,3 krónur fyrir lítra af dísilolíu þar.