Samtök um nýja stjórnarskrá (SANS) voru formlega stofnuð í Iðnó síðastliðið mánudagskvöldið. Félagið mun beita sér fyrir góðri þátttöku í stjórnarskrárkosningunum sem fara fram 20. október með því að kynna frumvarp stjórnlagaráðs.
Nú þegar hefur félagið staðið fyrir tónleikum og kynningu á málefninu á menningarnótt, en til stendur að nýta næstu tvo mánuði fram að kosningum til að útbúa kynningarefni og standa fyrir fundum um allt land um málefnið.
Í fréttatilkynningu kemur fram að félagið beiti sér fyrir því að kjósendur svari fyrstu spurningu kosninganna játandi, „enda telur það frumvarp stjórnlagaráðs í öllum atriðum betra en núverandi stjórnarskrá“. Fyrsta spurning kosninganna er svohljóðandi: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Aðrar spurningar varða efnisinnihald frumvarpsins.
Á stofnfundinum kynnti Sigríður Ólafsdóttir aðdragandann að stofnun félagsins og tilgang þess, en að því loknu flutti Svanur Kristjánsson erindi undir yfirskriftinni „Að skapa sér örlög“ – Samfélagssáttmáli, stjórnarskrá og íslenskt lýðræði“.
Að því loknu var kosið til stjórnar og buðu eftirfarandi aðilar sig fram og voru samþykkir með lófataki:
Gísli Tryggvason
Hjörtur Hjartarson
Lýður Árnason
Sigríður Ólafsdóttir
Þorvaldur Gylfason
Þórhildur Þorleifsdóttir
Örn Bárður Jónsson
Þorvaldur Gylfason var valinn formaður samtakanna og ávarpaði fundinn að loknum kosningum. Þórir Baldursson er gjaldkeri samtakanna.