Það sem af er ári hafa sex nígerískar konur sótt um hæli hér á landi en þær eru ýmist barnshafandi eða komu með börn sín með sér. Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, staðgengils forstjóra Útlendingastofnunar, eru mál þeirra í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Stofnunin hefur til skoðunar mál einnar nígerískrar konu til viðbótar.
Konurnar voru ýmist stöðvaðar í Leifsstöð eða gáfu sig fram þegar þær voru komnar inn í landið. Sumar þeirra voru með fölsuð skilríki. „Þær hafa í sjálfu sér ekki önnur réttindi en aðrir hælisleitendur. Ávallt er reynt að tryggja öllum þjónustu miðað við aðstæður og þarfir hverju sinni.
En þegar ákvarðanir eru teknar í málum þar sem börn eiga í hlut er ákvörðun einnig tekin með hagsmuni barna að leiðarljósi í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Þorsteinn aðspurður hvort sú staðreynd að konurnar eru ýmist barnshafandi eða með börn hafi áhrif á afgreiðslu viðkomandi mála.
Í Morgunblaðinu í dag segir að konurnar komu ekki saman til landsins og lítið sé vitað um hvort þær hafi einhver tengsl.