„Við gerum samninga við fólk og fyrirtæki. Við gerðum samning við ákveðinn aðila, eins og við höfum gert undanfarin ár sem tekur myndir og selur úr markinu. Þessi aðili er líka með þjónustu sem varðar birtingu úrslita. Heilan vef sem birtir úrslitin á myndrænu formi, í myndum og á myndskeiðum,“ sagði Svava Oddný Ásgeirsdóttir, verkefnisstjóri Reykjavíkurmaraþons, en eins og mbl.is greindi frá áðan hefur vefnum hlaup.is verið meinað að selja myndir frá maraþoninu þar sem gerður hafði verið samningur við sérstakan ljósmyndamiðil, marathon-photos.com þar sem hægt er að slá inn nafn eða hlaupanúmer til að finna myndir eða myndskeið af viðkomandi úr hlaupinu og fá þær keyptar.
„Það var gerður samningur við þennan miðil til reynslu í eitt ár og hann krafðist þess að hafa einkarétt á því að selja myndir,“ sagði Svava Oddný.
Spurð að því hvort það væri lítið mál að veita slíkan einkarétt sagði hún: „Við höfum leyfi fyrir viðburðinum á þessu svæði og höfum einn aðila sem við leyfum að taka myndir til að selja. Auðvitað er þetta allt mjög snúið um hvað megi birta á veraldarvefnum og það hefur enginn einkarétt á því og auðvitað hægt að fara í málaflækjur um það hver megi taka myndir af hverjum. En innan þessa viðburðar þá auglýsum við að það séu teknar myndir af fólkinu í markinu og það séu myndir sem þátttakendur fái tilboð um að þeir geti keypt.“
Marathon-Photos eru, líkt og Reykjavíkurmaraþon, með aðild að alþjóðlegu samtökunum Aims, sem eru samtök um gæði í hlaupamælingum og standa saman um að mæla hlaupabrautir rétt. Svava Oddný segir Reykjavíkurmaraþon hafa verið með aðild að þessum samtökum frá fyrstu árum maraþonsins. Hvort tveggja tengist einnig samtökunum Mileup sem sjá um tímamælingar á hlaupaviðburðum.
Svava segist harma að þessi árekstur við hlaup.is hafi komið upp, en að forsvarsmenn þar hafi ekki komið að máli við forsvarsmenn Reykjavíkurmaraþons um hvort í lagi væri að taka myndir af viðburðinum og selja þær þriðja aðila.
Í tilkynningu sem barst frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur nú fyrir skömmu, í kjölfar fréttar mbl.is segir: „Vegna umfjöllunar um birtingu mynda úr Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2012 vill Íþróttabandalag Reykjavíkur koma því á framfæri að Reykjavíkurmaraþon bannar ekki birtingu mynda úr hlaupinu. En til að tryggja að myndataka fari fram á hlaupinu og að keppendur eigi þess kost að kaupa myndir hefur verið samið við ljósmyndara um að veita þá þjónustu.
Þetta er þjónusta sem tíðkast einnig í öðrum alþjóðlegum hlaupum sem við berum okkur saman við. Í ár var gerður samningur við nýjan aðila um þetta verkefni.
Hingað til hefur ekki verið amast við því þó að aðrir aðilar hafi tekið myndir og selt enda hafa þeir ljósmyndarar sem gert hafa samning við Reykjavíkurmaraþon um að mynda hlaupið ekki gert athugasemdir við það hingað til. Nú ber svo við að opinber myndaþjónusta hlaupsins gerir athugasemd við að aðrir séu að fara inn á þeirra verksvið. Það er því skylda okkar að benda þeim sem ekki hafa leyfi til að hagnast á myndum úr hlaupinu að þeir hafi ekki rétt á að selja myndir úr hlaupinu. Birting mynda er ekki óleyfileg heldur eingöngu sala þeirra.“