Borgarráð Reykjarvíkur samþykkti samhljóða í morgun tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að reglum um vínveitingaleyfi verði breytt á þann veg að þær komi ekki í veg fyrir að dvalarheimili aldraðra geti fengið leyfi til að selja áfengi. Þetta þýðir að Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnista, getur sótt um vínveitingaleyfi á nýju kaffihúsi heimilisins.
Dvalarheimili aldraðra eru stundum í hverfum borgarinnar sem eru íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi en málsmeðferðarreglur borgarráðs um veitinga- og gististaði heimiluðu ekki rekstur vínveitingahúsa í íbúðarhverfum.
Tillaga Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, gerði ráð fyrir að málsmeðferðarreglum borgarráðs um veitinga- og gististaði verði breytt og borgarráð fái heimild til að veita undanþágu frá þeirri meginreglu að ekki sé heimilt að veita áfengisveitingastöðum rekstrarleyfi á íbúðarsvæðum þegar um dvalarheimili aldraðra sem staðsett er innan íbúðarsvæðis ræðir.
Formsatriðum rutt úr vegi
Aðspurður segist Júlíus Vífill fagna því að tillagan var samþykkt í borgarráði í morgun. Með því að breyta málsmeðferðarreglunum hefur formsatriðum verið rutt úr vegi og hægt að taka beiðnir dvalarheimila aldraðra um vínveitingaleyfi fyrir með eðlilegum hætti.
Að sögn Júlíusar var rætt um að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur vegna þessa máls. Sú leið er allt of seinleg og flókin og gæti hæglega tekið heilt ár. Málsmeðferðarreglur borgarinnar varðandi vínveitingaleyfi hafa reynst of þröngar og því eðlilegast að snúa sér að því að breyta þeim. Það er bara óþarfi að flækja mál sem í eðli sínu eru einföld, segir Júlíus.
Bókunin í heild sem samþykkt var á fundi borgarráðs í morgun: „Í ljósi þess að vinna við endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur er langt komin og formlegt kynningarferli þess að hefjast, er skrifstofustjóra borgarstjórnar falið að vinna tillögu, í samráði við skipulags- og byggingarsvið, að endurskoðun á gildandi málsmeðferðarreglum um veitingastaði og gististaði. Í endurskoðuninni skal taka mið af nýrri stefnumörkun varðandi skilgreiningu og hlutverk þjónustukjarna í íbúðarhverfum og breyttri framsetningu landnotkunar í nýju aðalskipulagi. Tillaga að endurskoðuðum málsmeðferðarreglum skal liggja fyrir þegar lögformleg kynning á nýju aðalskipulagi hefst.“