Lilja Mósesdóttir gefur ekki kost á sér í embætti formanns Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, á landsfundi flokksins sem haldinn verður í byrjun október. Þannig segist hún axla ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði. Fram að kosningum segist hún munu einbeita sér að störfum sínum á þingi.
Lilja nefnir margar ástæður sem liggi baki þeirri ákvörðun að sækjast ekki eftir kjöri. Þyngst vegi mikill aðstöðumunur milli stjórnmálaflokka hvað varðar fjárframlög úr ríkissjóði og aðgengi að fjölmiðlum. Nýjum stjórnmálasamtökum sé gert að fjármagna kosningabaráttu sína með styrkjum á meðan stóru flokkarnir njóti 22-90 milljóna króna ríkisstyrkja. Nánast ógerningur sé að koma á framfæri upplýsingum um stefnu og fulltrúa nýrra flokka til almennings því fjölmiðlar haldi ríkisstyrktu flokkunum á lofti en hafi lítinn áhuga á nýjum framboðum. Auk þess séu ný stjórnmálasamtök áhrifalaus á Alþingi.
„Það var aldrei ætlun mín að gerast stjórnmálamaður en mikill meðbyr með málflutningi mínum um fjármálakreppuna varð til þess að ég tók ákvörðun um að bjóða fram krafta mína í síðustu alþingiskosningum,“ segir í yfirlýsingu sem Lilja sendi frá sér í morgun. „Með framboði mínu vonaðist ég til að geta lagt mitt af mörkum til að endurreisn efnahagslífsins grundvallaðist á hagsmunum almennings.“
Nýtur ekki lengur sama stuðnings
Hún segir málefnastarfið og samstarfið við félaga Samstöðu hafa verið gefandi en nú þegar Samstaða njóti ekki lengur sama stuðnings í samfélaginu og við stofnun samtakanna sé „nauðsynlegt að staldra við og íhuga framhaldið“.
„Niðurstaða mín er sú að farsælast sé að gefa ekki kost á mér í embætti formanns Samstöðu á landsfundi samtakanna í byrjun október og axla þannig ábyrgð á fylgistapinu. Sem þingmaður mun ég halda áfram að leggja mig fram um að bregðast ekki trausti kjósenda og verja vinnutíma mínum og starfsorku í baráttu fyrir réttlátu samfélagi þar sem meiri jöfnuður, velferð og lýðræði ríkir.“
Landsfundur Samstöðu verður haldinn 6. október nk. Þar verður kosin stjórn og formaður flokksins.