Von er á yfir þúsund gestum við Jökulsárlón á laugardagskvöld þegar þar fer fram árleg flugeldasýning. Fjöldinn hefur farið stigvaxandi undanfarin ár og því allt eins búist við að nýtt met verði slegið á laugardag. Auk flugeldanna verða ísjakar í lóninu lýstir upp með kertum.
Björgunarfélag Hornafjarðar stendur að sýningunni í samstarfi við ferðaþjónustuna á Jökulsárlóni og Ríki Vatnajökuls. Viðburðurinn er mikilvæg fjáröflun fyrir björgunarfélagið og rennur allur aðgangseyrir óskiptur til félagsins, 1.000 krónur á mann.
Aðstandendur segja að um sé að ræða magnað sjónarspil og ógleymanlega upplifun fyrir gesti.