Starfsmenn fjölskyldu- og félagssviðs Reykjanesbæjar hafa í lok sumars orðið varir við áhyggjur foreldra vegna kostnaðar við upphaf skólaárs barnanna. „Við verðum þó meira vör við áhyggjur almennt af atvinnuleysi,“ segir framkvæmdastjóri sviðsins sem óttast að „týnd kynslóð“ sé að myndast í bænum, þrátt fyrir öll úrræðin sem eru í boði.
Í síðasta mánuði leituðu rúmlega 170 manns eftir fjárhagsaðstoð hjá fjölskyldu- og félagssviðinu. „Það er vonleysi að grípa fólk sem vill komast í vinnu,“ segir Hjördís Árnadóttir, framkvæmdastjóri sviðsins. „Við verðum vör við það núna að þessi þáttur er meira áberandi en áður.“
Greint var frá því á mbl.is í síðustu viku að tæplega 45% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í Reykjanesbæ í júlí, 280 manns, hafi verið þar í tvö ár eða lengur og séu því á leiðinni að missa réttinn til atvinnuleysisbóta. Tugir manna hafi þegar misst þann rétt og sé því nú sótt af auknum þunga til félagsþjónustu bæjarins eftir lausnum.
Hjördís bendir á að atvinnuvandinn hafi ekki hafist í bænum með hruninu, líkt og hjá mörgum öðrum sveitarfélögum, heldur rúmu ári fyrr með brotthvarfi varnarliðsins. Þá misstu 600 manns vinnuna. „Við erum búin að vera að fá þennan hóp ári lengur en önnur sveitarfélög og hann mun bara fara stækkandi ef ekkert verður að gert. Tímabundnar lausnir eru ekki æskilegasta þróunin þótt það sé vissulega gott að fólk fái eitthvað tímabundið að gera ef atvinnu vantar en fyrst og fremst vill fólk komast í vinnu sem gefur af sér sómasamleg laun svo það geti séð sér og sínum farborða. Fólk er að missa húsin sín og hefur áhyggjur af því.“
Aðspurð segir Hjördís fjölmörg úrræði í boði. „Það vantar ekki hér á þessu svæði alls konar virkni- og endurhæfingarúrræði, en númer eitt, tvö og þrjú vantar að fólk fái vinnu og laun. Það er það sem fólk þráir og vill sjá,“ segir hún. Mikið hafi verið gert til að koma í veg fyrir að í bænum myndist svokölluð „týnd kynslóð“ eins og gerðist í Finnlandi í kjölfar efnahagskreppu á 10. áratug síðustu aldar. Þar er vísað til þess hóps sem kreppan bitnaði hvað harðast á, einstaklinga sem voru að ljúka námi en buðust engin atvinnutækifæri. Þegar þau loks gáfust voru nýútskrifaðir frekar ráðnir en þeir sem höfðu verið atvinnulausir lengi.
„Ég hef vissulega áhyggjur af því að það sé að verða til hjá okkur týnd kynslóð, það er mín tilfinning. Úrræðin sem eru í boði henta ekki alltaf fólki,“ segir Hjördís. „Það er kominn hópur af fólki sem er orðinn vonlaus og er erfitt að virkja og það er beinlínis sá hópur sem maður hefur mestar áhyggjur af. Það hefur sannarlega verið reynt að halda fólki í virkni en það eru ekki allir sem munu komast heilir í gegnum þetta ef ekki gerist eitthvað fljótlega í atvinnumálunum.“
Frétt mbl.is: Vandinn að veruleika í Reykjanesbæ