Landspítalinn rekinn með tapi

Landspítali
Landspítali mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Landspítalinn er í fyrsta skipti síðustu þrjú ár rekinn með tapi en hallinn er 84 milljónir fyrstu sex mánuðina. Engu að síður er stefnt að hallalausum rekstri í ár, segir Björn Zoëga forstjóri Landspítalans í pistli á vef spítalans.

„Helstu ástæður fyrir hallanum sem við höfum verið að glíma við þekkið þið; það hefur verið meira að gera á spítalanum, sjúklingar liggja lengur inni og fleira fólk leitar eftir þjónustu spítalans. Þetta kemur ofan í það að rekstrarfé hefur verið skorið niður um 23% á síðustu árum og erum við nú á þessu ári að reka spítalann fyrir meira en 9 milljarða lægri upphæð heldur en árið 2007, uppreiknað fyrir árið í ár. Önnur atriði sem einnig hafa áhrif eru að ýmis rekstrarkostnaður hefur aukist og við höfum einnig þurft að taka töluvert af rekstrarfé í kaup og endurnýjun á tækjum sem hafa verið að bila og gefa sig síðustu mánuðina.“

Að sögn Björns stefndi í að Landspítalinn yrði rekinn með 200 milljón króna tapi í ár en farið var í ákveðnar aðgerðir sem hafa skilað árangri.

„Í dag verður einnig birt sjö mánaða uppgjörið sem sýnir að hallinn heldur áfram að minnka og er núna kominn í 61 milljón. 

Við reiknum með að við náum þrátt fyrir allt að halda spítalanum innan fjárheimilda ársins og samkvæmt okkar áætlunum mun takast að jafna þennan halla út á næstu mánuðum,“ segir Björn.

Tækjaþörfin er uppsafnaður vandi sem hefur aukist jafnt og þétt í 10 ár

Töluvert hefur verið fjallað um tækjaþörf spítalans á síðustu vikum en fyrir okkur sem vinnum á spítalanum er það ekkert nýtt, við höfum varað við þessu í langan tíma og þetta er uppsafnaður vandi til fjölmargra ára, segir Björn.

„Vandinn hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin 10 ár, hann var til staðar löngu fyrir bankahrunið og áður en niðurskurðurinn varð svona mikill,“ segir Björn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert