„Mitt svar er NEI“

Gestir flokksráðsfunds Vinstri Grænna hlustuðu einbeittir á ræðu Katrínar Jakobsdóttur …
Gestir flokksráðsfunds Vinstri Grænna hlustuðu einbeittir á ræðu Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra. mbl.is

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra var bjartsýn í ræðu sinni í upphafi flokksráðsfundar Vinstri grænna sem fram fer á Hólum í Hjaltadal yfir helgina.

Í ræðu Katrínar kom fram að flokksmenn Vinstri grænna mættu vera stoltir yfir verkum sínum í meirihlutasamstarfinu. „Nú þegar átta mánuðir eru til alþingiskosninga er gleðilegt að geta sagt að við höfum náð grundvallarmarkmiðum ríkisstjórnarsamstarfsins,“ sagði Katrín. 

Hún skilgreindi árangurinn svo: „Verðbólgan er nú komin niður í 4,6% og fer minnkandi líkt atvinnuleysið sem er einnig komið niður í 4,6%. Kröftugur vöxtur í landsframleiðslunni sem byggist á raunverulegum forsendum er einnig hafinn eftir 11% samdrátt árin 2009 til 2012. Síðast en ekki síst hefur staða ríkissjóðs stórbatnað og stefnir í að hann verði orðinn sjálfbær við lok þessa árs. Þessi árangur rennir traustum stoðum undir þau öflugu velferðar- og menntakerfi sem við viljum reka og skapar forsendur fyrir enn frekari eflingu,“ sagði Katrín.

Snýst ekki um umsókn að ESB

Hún ræddi umdeildar skattakerfisbreytingar meirihlutastjórnarinnar. „Þær breytingar sem gerðar voru á skattkerfinu um áramótin 2009 til 2010 hafa orðið til þess að auka jöfnuð í samfélaginu með því að færa skattbyrði af þeim tekjulágu yfir á þá tekjuhærri,“ sagði Katrín.

Katrín var ómyrk í máli þegar kom að Evrópusambandsumræðu. „Stjórnarsamstarfið snýst ekki um umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Það snýst um að skapa velferðarsamfélag á Íslandi. Meðal þeirra spurninga sem við þurfum að svara í því samhengi er hvort aðild að Evrópusambandinu þjóni því markmiði eða ekki. Mitt svar við þeirri spurningu er NEI, en ég vil eigi að síður spyrja þjóðina sömu spurningar,“ sagði Katrín.

Illdeilur og átök

Hún lýsti yfir vonbrigðum með sundrungu innan Vinstri grænna. „Stærstu vonbrigði mín á kjörtímabilinu eru að sú samstaða og samheldni sem einkennt hefur okkar hreyfingu frá upphafi hefur horfið. Í staðinn hafa komið illdeilur og átök. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að tekist sé á um málefni. Það hefur verið einkenni og styrkur Vinstri grænna að hver og einn eigi rödd og við höfum stært okkur af því að hafa þá umræðu opna og gagnsæja og óttast ekki andstæð sjónarmið. Þöggun og ótti við umræðu var einmitt eitt af því sem einkenndi samfélagið fyrir hrun og það viljum við ekki endurtaka,“ sagði Katrín.

Í lok ræðunnar stappaði Katrín stálinu í flokkssystkini sín. „Að undanförnu hefur árangur ríkisstjórnarinnar orðið æ ljósari – reyndar er hann svo augljós að neikvæðustu raddir samfélagsins eru hættar að reyna að andmæla honum en reyna þess í stað að tala hann niður. Árangur okkar er óumdeilanlegur og við eigum að vera stolt af honum og stolt af ríkisstjórninni,“ sagði Katrín.

„Stærstu vonbrigði mín á kjörtímabilinu eru að sú samstaða og …
„Stærstu vonbrigði mín á kjörtímabilinu eru að sú samstaða og samheldni sem einkennt hefur okkar hreyfingu frá upphafi hefur horfið,“ sagði Katrín í ræðu sinni. norden.org/Magnus Fröderberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert