„Nú hefur Laugavegurinn verið opnaður á nýjan leik frá Vatnsstíg og iðandi mannlíf í götunni, en verslun hefur tekið mikinn kipp í vikunni.“ Þetta segir Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, í nýjum pistli á vefsvæði sínu.
Samtökin hafa barist gegn lokuninni og segja hana koma illa við verslun á Laugaveginum. Meðal annars hafi aldraðir og fatlaðir verið sjaldséðir gestir á Laugaveginum á meðan hann var lokaður að hluta. En nú hefur Laugavegur verið opnaður á ný og verslun að sama skapi tekið kipp.
Björn Jón bendir einnig á að það sé skemmtilegt samspil gangandi og akandi vegfarenda á Laugavegi og full ástæða til hvetja Reykvíkinga og aðra landsmenn til að gera sér ferð í bæinn og líta í búðir og búðarglugga á aðalverslunargötu landsins.