Líða fer að hlaupi í Skaftám en staðsetning ísskjálfta í vestri Skaftárkatli bendir til þess að hlaupvatn sé nú í um 20 km fjarlægð frá jökulsporðinum. Það þýðir að hlaupið mun ekki ná í Skaftá fyrr en seint í kvöld eða snemma á morgun. Hlaup úr vestari katlinum eru minni en hlaup úr eystri katlinum og því einnig hættuminni.
Jón Grétar Sigurðsson, flugmaður Atlantsflugs í Skaftafelli, flaug yfir svæðið um hádegisbilið í dag og staðfesti að hlaupið kæmi úr vestri katlinum. „Þetta er allt á byrjunarstigi og alveg ljóst að vestari ketillinn á eftir að hlaupa mjög fljótlega, enda alveg smekkfullur eins og sést glöggt í myndbandinu,“ segir Jón Grétar.
Katlarnir hlaupa sinn í hvora ána. „Vestari ketillinn hleypur yfirleitt í Túná og sá eystri í Skaftá. Töluverð umbrot eru nú á jöklinum en meiri dramatík er yfirleitt í kringum eystri ketilinn,“ segir Jón Grétar.
Hann segir aðstæður svipaðar og þegar síðast hljóp, en það var úr vestari katlinum í júlí 2011. „Áhrifasvæðið er minna en við héldum en samt sem áður er um mjög stórt svæði að ræða,“ segir Jón Grétar.
Frá því kl. 21 í gærkvöldi hefur ísskjálftavirkni sést á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar á Grímsfjalli og Skrokköldu og Jökulheimum. Mælt er með að fólk fari ekki að útfalli hlaupsins þar sem hætta er á brennisteinsgasi á því svæði. Einnig má vænta að það hlaupi úr eystri katlinum á næstu dögum eða vikum.
Tengd frétt: Vara við eiturgufum og vatnavöxtum