Verkefni í vélaverkfræði við Háskóla Íslands vatt upp á sig hjá Sæþóri Ásgeirssyni sem hyggst leggja fyrir sig framleiðslu vindmylla. Hann var með eina slíka til sýnis í Álafosskvos í tilefni af bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima.
Venjuleg hugmynd manna af vindmyllum er hvít þriggja blaða á afar háum staur. Slíkar vindmyllur henta hins vegar illa við íslenskar aðstæður. Vindmylla Sæþórs lítur hins vegar frekar út eins og keila, hún þarf ekki að snúa sér upp í vindinn og ekki skiptir máli hvaða vindátt er.
„Þetta byrjaði þegar ég var í BS-námi í vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Þá fengum við það verkefni að hanna vindhraðamæli. Mig langaði að gera eitthvað óhefðbundið þannig að hönnunin er eiginlega fengin frá túrbínum bíla,“ segir Sæþór og bætir við að vindhraðamælirinn hafi virkað vel.
Hugmyndin að vindmyllunni kom hins vegar í umræðum innan fjölskyldunnar. Foreldrar Sæþórs eiga sumarhús sem hitað er upp með rafmagni. Kostnaður við það hleypur á hundruðum þúsunda og vildu þau gjarnan skera hann niður. „Þá ákvað ég að láta reyna á þetta, að láta vindhraðamælinn framleiða rafmagn.“
Fyrsta vindmyllan leit dagsins ljós árið 2007 en Sæþór fór að huga að þessu fyrir alvöru ári síðar. Frá árinu 2009 hefur vindmylla staðið við sumarhús foreldra hans og í stanslausri notkun. Hún sér bústaðnum fyrir allt að helmingi alls rafmagns sem notað er, en það fer aðeins eftir vindi. Rafallinn hefur reyndar verið endurnýjaður, en Sæþór hannaði hann sjálfur og smíðaði.
Sæþór segist hafa haft íslenskar aðstæður í huga við hönnun vindmyllunnar. „Hún á að þola allar mögulegar aðstæður sem geta komið upp hér á landi. Þá er ég að tala um vind upp á fimmtíu metra á sekúndu. Auk þess á hún að duga í meira en tuttugu ár.“
Vindmyllan er algjörlega hljóðlaus en um er að ræða svonefnt lágsnúningakerfi. Hún er gerð fyrir staðvindasvæði, t.d. sumarbústaðasvæði þar sem vindstyrkur er lítill. „Hún er gerð til að grípa þann vind sem fyrir hendi er og búa til eitthvað úr honum,“ útskýrir Sæþór.
Hann segir einnig að við hönnunina hafi verið haft í huga að halda kostnaði í lágmarki til þess að sem flestir sumarbústaðaeigendur geti átt þess kost að kaupa slíka vindmyllu. „Vindmyllan sem ég er að sýna í dag er sú minnsta sem ég geri. Hún kostar hálfa milljón ef ég geri eitt stykki en ef ég myndi gera fleiri, kannski tíu til tuttugu, myndi kostnaðurinn lækka verulega.“
Framleiðslan er ekki hafin af fullum krafti en Sæþór lýkur meistaranámi um áramót og segist þá ætla að einblína á vindmyllurnar. „Ég hef svolítið verið að skoða svipaðar lausnir í útlöndum og þar er algengt verð um 10 þúsund dollarar. Ég ætti að geta boðið svona kerfi á 3.000-6.000 dollara.“