Vörn velferðar stærsti sigurinn

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar sagði í ávarpi sínu að markmið …
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar sagði í ávarpi sínu að markmið flokksins væri að snúa halla á rekstri ríkisins í afgang eigi síður en árið 2014. mbl.is/Sigurgeir S.

„Það rennur nú upp fyrir æ fleirum að Ísland er á réttri leið undir stjórn okkar jafnaðarmanna.“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fram fer á Hótel Natura. „Fram hefur komið að fleiri Íslendingar telja landið á réttri leið en íbúar flestra annarra Evrópulanda, aðeins Svíar eru jákvæðari.“

Jóhanna sagði engum blöðum um það að fletta að Íslendingar ættu enn mikið inni í hagvexti og auknum efnahagsumsvifum. Hagvöxtur væri þó ekki markmið í sjálfu sér  heldur væri  sjálfbær hagvöxtur ávísun á lífsgæði. „Þar höfum við náð árangri svo eftir er tekið. Störfum er farið að fjölga og tölur Hagstofunnar sýna að störfum hefur á þessu ári fjölgað um 4.600. Fá ríki innan OECD búa við minna atvinnuleysi og ekkert ríki hefur náð að minnka atvinnuleysi á sama hátt og hér hefur verið gert,“ sagði Jóhanna.

Gróðabrall bóluhagkerfisins

Jóhanna vék að því hvernig umhorfs væri á Íslandi hefðu hægrimenn verið við völd síðustu ár. „Stoltust er ég af þeim árangri við að verja velferðarkerfið. Fólkið sem aldrei tók þátt í gróðabralli bóluhagkerfisins en hefði orðið harðast úti með afleiðingum hrunsins ef hægrimenn hefðu verið við völd. Þetta tókst meðal annar með fjölda skuldaúrræða, bótum og samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins.

Hún ræddi jafnræði í landinu. „Algjör umskipti hafa átt sér stað í jafnréttismálum hér á landi. Við stefndum að því að verða mesta ójafnræðissamfélag meðal vestrænna ríkja undir stjórn hægrimanna en það hefur algjörlega snúist við. Nú erum við meðal þeirra þjóða þar sem mestur tekjujöfnuður ríkir. Þessi breyting mun skipta einna mestu máli um vöxt og viðgang þjóðarinnar á næstu árum. Þetta er mikilvægasta verkefni okkar jafnaðarmanna og þarna liggur okkar stærsti sigur á þessu kjörtímabili,“ segir Jóhanna.

Snúa halla í afgang fyrir 2014

Jóhanna ræddi ennfremur skuldir ríkisins. „Við höfum þurft að færa miklar og sárar fórnir enda voru skuldir ríkissjóðs rúmlega 200 milljarðar þegar við tókum við. Markmiðið hefur verið skýrt - að snúa halla á rekstri ríkisins í afgang eigi síðar en árið 2014. Þetta er okkur einnig að takast og komandi fjárlög verða síðasti stóri áfanginn á þeirri vegferð,“  sagði Jóhanna.

Hún ræddi uppbyggingu atvinnulífs. „Mikilvægt að auka fjárfestingar og búa þannig í haginn fyrir áframhaldandi vöxt atvinnulífs. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sett fram fjárfestingaráætlun sem ætlað er að tryggja þetta,“ sagði Jóhanna.

„Dómsdagsspár andstæðinga okkar hafa reynst marklítið orðagjálfur. Það sama má segja um þá sem segja að jákvæð teikn sem víðast hvar blasa nú við séu tilviljun. Hér eftir sem hingað til munu smaladrengir stjórnarandstöðunnar reynast ósannspáir,“ sagði Jóhanna.

Hún ræddi enn þann möguleika að hægrimenn taki aftur við völdum. „Hvað yrði um margvíslegar umbætur í lýðræðis- og jafnréttismálum sem og margvíslegar breytingar í stjórnsýslu ef hægriflokkar næðu hér aftur völdum? Myndu þeir afnema þær breytingar sem við jafnaðarmenn komum á? Mun aukinn ójöfnuður halda innreið sína í íslenskt samfélag á ný? Myndi græðgin og forréttindin taka völdin á nýjan leik? Það er okkar, jafnaðarmenn, að koma í veg fyrir það,“ sagði Jóhanna. 

Róttækasta og farsælasta ríkisstjórnin

„Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokks hafa nú þegar gefið út að þeir munu draga til baka sanngjarnar skattabreytingar okkar. Hætt verður við aðildarviðræður að ESB,“ sagði Jóhanna.

„Frammi fyrir íslenskri þjóð liggja tveir skýrir kostir: áframhaldandi forysta Íslands eða afturhvarf til þess ójafnaðarsamfélags sem Sjálfstæðisflokkurinn byggði í samstarfi við Framsóknarflokkinn, samfélagsþróunar sem leiddi til hruns. Um þetta verður kosið í næstu kosningum,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna sagði líklegt að núverandi ríkisstjórn væri sú róttækasta og farsælasta í sögu landsins.

„Okkur ber skylda til að gera tilraun til að ná samstöðu um þingstörfin enda augljósir sameiginlegir hagsmunir sem krefjast þess að koma í veg fyrir málþóf eins og það sem átti sér stað á síðasta ári og var þinginu til skammar,“ sagði Jóhanna.

„Við munum setja í algjöran forgang að ný stjórnarskrá verði ákveðin sem fyrst og rannsókn á einkavæðingu bankanna hlýtur líka að vera forgangsmál,“ sagði Jóhanna.

Eftir ávarp Jóhönnu fara fram umræður og afgreiðsla á tillögu hennar um breytingar á ráðherraskipan. Tillagan hljóðar upp á að Katrín Júlíusdóttir taki við embætti fjármálaráðherra hinn 1. október næstkomandi í stað Oddnýjar G. Harðardóttur sem tók við þegar Katrín fór í fæðingarorlof.

Dagur B. Eggertsson og Oddný Harðardóttir, fráfarandi fjármálaráðherra, á flokksstjórnarfundi …
Dagur B. Eggertsson og Oddný Harðardóttir, fráfarandi fjármálaráðherra, á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurgeir S.
Össur Skarphéðinsson á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurgeir S.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka