Vörn velferðar stærsti sigurinn

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar sagði í ávarpi sínu að markmið …
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar sagði í ávarpi sínu að markmið flokksins væri að snúa halla á rekstri ríkisins í afgang eigi síður en árið 2014. mbl.is/Sigurgeir S.

„Það renn­ur nú upp fyr­ir æ fleir­um að Ísland er á réttri leið und­ir stjórn okk­ar jafnaðarmanna.“ sagði Jó­hanna Sig­urðardótt­ir á flokks­stjórn­ar­fundi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sem fram fer á Hót­el Natura. „Fram hef­ur komið að fleiri Íslend­ing­ar telja landið á réttri leið en íbú­ar flestra annarra Evr­ópu­landa, aðeins Sví­ar eru já­kvæðari.“

Jó­hanna sagði eng­um blöðum um það að fletta að Íslend­ing­ar ættu enn mikið inni í hag­vexti og aukn­um efna­hags­um­svif­um. Hag­vöxt­ur væri þó ekki mark­mið í sjálfu sér  held­ur væri  sjálf­bær hag­vöxt­ur ávís­un á lífs­gæði. „Þar höf­um við náð ár­angri svo eft­ir er tekið. Störf­um er farið að fjölga og töl­ur Hag­stof­unn­ar sýna að störf­um hef­ur á þessu ári fjölgað um 4.600. Fá ríki inn­an OECD búa við minna at­vinnu­leysi og ekk­ert ríki hef­ur náð að minnka at­vinnu­leysi á sama hátt og hér hef­ur verið gert,“ sagði Jó­hanna.

Gróðabrall bólu­hag­kerf­is­ins

Jó­hanna vék að því hvernig um­horfs væri á Íslandi hefðu hægri­menn verið við völd síðustu ár. „Stolt­ust er ég af þeim ár­angri við að verja vel­ferðar­kerfið. Fólkið sem aldrei tók þátt í gróðabralli bólu­hag­kerf­is­ins en hefði orðið harðast úti með af­leiðing­um hruns­ins ef hægri­menn hefðu verið við völd. Þetta tókst meðal ann­ar með fjölda skulda­úr­ræða, bót­um og sam­komu­lagi við aðila vinnu­markaðar­ins.

Hún ræddi jafn­ræði í land­inu. „Al­gjör um­skipti hafa átt sér stað í jafn­rétt­is­mál­um hér á landi. Við stefnd­um að því að verða mesta ójafn­ræðis­sam­fé­lag meðal vest­rænna ríkja und­ir stjórn hægrimanna en það hef­ur al­gjör­lega snú­ist við. Nú erum við meðal þeirra þjóða þar sem mest­ur tekju­jöfnuður rík­ir. Þessi breyt­ing mun skipta einna mestu máli um vöxt og viðgang þjóðar­inn­ar á næstu árum. Þetta er mik­il­væg­asta verk­efni okk­ar jafnaðarmanna og þarna ligg­ur okk­ar stærsti sig­ur á þessu kjör­tíma­bili,“ seg­ir Jó­hanna.

Snúa halla í af­gang fyr­ir 2014

Jó­hanna ræddi enn­frem­ur skuld­ir rík­is­ins. „Við höf­um þurft að færa mikl­ar og sár­ar fórn­ir enda voru skuld­ir rík­is­sjóðs rúm­lega 200 millj­arðar þegar við tók­um við. Mark­miðið hef­ur verið skýrt - að snúa halla á rekstri rík­is­ins í af­gang eigi síðar en árið 2014. Þetta er okk­ur einnig að tak­ast og kom­andi fjár­lög verða síðasti stóri áfang­inn á þeirri veg­ferð,“  sagði Jó­hanna.

Hún ræddi upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs. „Mik­il­vægt að auka fjár­fest­ing­ar og búa þannig í hag­inn fyr­ir áfram­hald­andi vöxt at­vinnu­lífs. Þess vegna hef­ur rík­is­stjórn­in sett fram fjár­fest­ingaráætl­un sem ætlað er að tryggja þetta,“ sagði Jó­hanna.

„Dóms­dags­spár and­stæðinga okk­ar hafa reynst mark­lítið orðagjálf­ur. Það sama má segja um þá sem segja að já­kvæð teikn sem víðast hvar blasa nú við séu til­vilj­un. Hér eft­ir sem hingað til munu smala­dreng­ir stjórn­ar­and­stöðunn­ar reyn­ast ósann­spá­ir,“ sagði Jó­hanna.

Hún ræddi enn þann mögu­leika að hægri­menn taki aft­ur við völd­um. „Hvað yrði um marg­vís­leg­ar um­bæt­ur í lýðræðis- og jafn­rétt­is­mál­um sem og marg­vís­leg­ar breyt­ing­ar í stjórn­sýslu ef hægri­flokk­ar næðu hér aft­ur völd­um? Myndu þeir af­nema þær breyt­ing­ar sem við jafnaðar­menn kom­um á? Mun auk­inn ójöfnuður halda inn­reið sína í ís­lenskt sam­fé­lag á ný? Myndi græðgin og for­rétt­ind­in taka völd­in á nýj­an leik? Það er okk­ar, jafnaðar­menn, að koma í veg fyr­ir það,“ sagði Jó­hanna. 

Rót­tæk­asta og far­sæl­asta rík­is­stjórn­in

„For­svars­menn Sjálf­stæðis­flokks hafa nú þegar gefið út að þeir munu draga til baka sann­gjarn­ar skatta­breyt­ing­ar okk­ar. Hætt verður við aðild­ar­viðræður að ESB,“ sagði Jó­hanna.

„Frammi fyr­ir ís­lenskri þjóð liggja tveir skýr­ir kost­ir: áfram­hald­andi for­ysta Íslands eða aft­ur­hvarf til þess ójafnaðarsam­fé­lags sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn byggði í sam­starfi við Fram­sókn­ar­flokk­inn, sam­fé­lagsþró­un­ar sem leiddi til hruns. Um þetta verður kosið í næstu kosn­ing­um,“ sagði Jó­hanna.

Jó­hanna sagði lík­legt að nú­ver­andi rík­is­stjórn væri sú rót­tæk­asta og far­sæl­asta í sögu lands­ins.

„Okk­ur ber skylda til að gera til­raun til að ná sam­stöðu um þing­störf­in enda aug­ljós­ir sam­eig­in­leg­ir hags­mun­ir sem krefjast þess að koma í veg fyr­ir málþóf eins og það sem átti sér stað á síðasta ári og var þing­inu til skamm­ar,“ sagði Jó­hanna.

„Við mun­um setja í al­gjör­an for­gang að ný stjórn­ar­skrá verði ákveðin sem fyrst og rann­sókn á einka­væðingu bank­anna hlýt­ur líka að vera for­gangs­mál,“ sagði Jó­hanna.

Eft­ir ávarp Jó­hönnu fara fram umræður og af­greiðsla á til­lögu henn­ar um breyt­ing­ar á ráðherra­skip­an. Til­lag­an hljóðar upp á að Katrín Júlí­us­dótt­ir taki við embætti fjár­málaráðherra hinn 1. októ­ber næst­kom­andi í stað Odd­nýj­ar G. Harðardótt­ur sem tók við þegar Katrín fór í fæðing­ar­or­lof.

Dagur B. Eggertsson og Oddný Harðardóttir, fráfarandi fjármálaráðherra, á flokksstjórnarfundi …
Dag­ur B. Eggerts­son og Odd­ný Harðardótt­ir, frá­far­andi fjár­málaráðherra, á flokks­stjórn­ar­fundi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Sig­ur­geir S.
Össur Skarphéðinsson á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.
Össur Skarp­héðins­son á flokks­stjórn­ar­fundi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Sig­ur­geir S.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert